Lífið

Skapandi vinkonur halda uppi blogginu Adulescentulus

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Marta Hlín, Anna Maggý og Margrét Unnur halda uppi blogginu Adulescentulus
Marta Hlín, Anna Maggý og Margrét Unnur halda uppi blogginu Adulescentulus Mynd/Daníel
Vinkonurnar Anna Maggý, Marta Hlín og Margrét Unnur fengu það skemmtilega verkefni í sumar að byrja tískublogg á vegum skapandi sumarstarfa í Kópavogi. Bloggið heitir því undarlega nafni Adulescentulus, sem er latína og merkir ungur maður, enda snýst bloggið um ungt fólk. Það sem einkennir bloggið er að það fjallar ekki um þær sjálfar.

„Okkur langaði ekki að vera alltaf að blogga um okkur sjálfar. Við förum í heimsóknir, skoðum herbergi og tökum viðtöl við skapandi fólk og fræðumst um hvað það er að gera. Matarfærslur eru inni á milli og svo förum við í bæinn og tökum myndir af götutískunni,“ segir Margrét Unnur.

Stelpurnar vinna saman flotta myndaþætti
Það sem hefur vakið athygli eru myndaþættirnir sem stelpurnar gera frá grunni. „Við reddum fötum, finnum umhverfi, sjáum um förðun, tökum flestar myndirnar og vinnum þær. Það tekur mestan tíma að vinna í kringum myndatökurnar,“ útskýra stelpurnar. Mikil vinna er lögð í hverja einustu færslu hjá þeim, enda eru þær í fullri vinnu við bloggið. Bloggið hefur aðeins verið í gangi í einn og hálfan mánuð en þrátt fyrir það fá þær fjölmargar heimsóknir á síðuna.

Mikið er um heimsóknir til spennandi fólks á blogginu
Stelpurnar leita sér að innblæstri í umhverfinu. „Fólkið í kringum okkur veitir okkur mikinn innblástur. Netið gefur okkur auðvitað líka hugmyndir og þar finnum við jafnvel spennandi fólk sem okkur langar til þess að taka viðtöl við,“ segir Marta.

Mikil vinna fer í hvern myndaþátt
Þær vinkonur kynntust í Menntaskólanum við Hamrahlíð og sóttu um starfið saman. Í haust mun þó Anna Maggý flytja til London og vera í fjarnámi við Fjölbraut í Breiðholti. Stelpurnar eru að gera ótrúlega góða hluti þrátt fyrir að vera aðeins á átjánda aldursári.

„Þetta er klárlega skemmtilegasta vinna sem við höfum unnið við. Það er alveg frábært að vinna hjá skapandi sumarstörfum og gera það sem við elskum,“ segir Anna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.