Lífið

Íslensk glæpasagnahátíð á lista hjá Guardian

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Í undirbúningi Rithöfundurinn Ragnar Jónasson skipuleggur glæpasagnahátíðina Iceland Noir sem fram fer í nóvember.
Í undirbúningi Rithöfundurinn Ragnar Jónasson skipuleggur glæpasagnahátíðina Iceland Noir sem fram fer í nóvember. fréttablaðið/stefán
„Þetta er sérstaklega skemmtilegt í ljósi þess að hátíðin hefur ekki einu sinni verið haldin,“ segir rithöfundurinn Ragnar Jónasson, sem skipuleggur íslensku glæpasagnahátíðina Iceland Noir ásamt þeim Yrsu Sigurðardóttur og Quentin Bates.

Hátíðin fer fram 21. til 23. nóvember en þrátt fyrir að eiga enn eftir að fara fram komst hún á lista yfir bestu glæpasagnahátíðir heims hjá vefsíðu The Guardian nú fyrir helgi. Þar segir að gestir hátíðarinnar ættu að skella sér í Bláa lónið og leita uppi norðurljósin á milli þess sem þeir sækja spennandi fyrirlestra.

Ragnar segir undirbúninginn vel á veg kominn. „Það hefur gengið ótrúlega vel að fá erlenda höfunda til að taka þátt. Við renndum blint í sjóinn með þetta allt saman en við ákváðum að láta á þetta reyna.“

Meðal þeirra sem boðað hafa komu sína eru rithöfundurinn Ann Cleeves, höfundur sagnanna um Veru Stanhope sem kvikmyndaðar hafa verið af BBC, og Jorn Lier Horst, handhafi norræna Glerlykilsins 2013. Ragnar segir að ókeypis verði inn á hátíðina og að áhugasamir geti skráð sig á vefsíðunni Icelandnoir.com.

Spurður að því hvort til standi að halda hátíðina ár hvert segir Ragnar það enn óljóst. „Það er aldrei að vita. Ef þetta gengur vel er alveg ástæða til þess að prófa þetta aftur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.