Lífið

Tímafrekara að teikna síðhærða hunda en snögghærða

Sara McMahon skrifar
Ásta Katrín Viggósdóttir, nítján ára Garðbæingur, tekur að sér að teikna myndir af gæludýrum fólks.
Ásta Katrín Viggósdóttir, nítján ára Garðbæingur, tekur að sér að teikna myndir af gæludýrum fólks. Fréttablaðið/Arnþór Birkisson
„Ég teikna eiginlega allt sem mér þykir fallegt en dýr eru algengustu viðfangsefnin,“ segir Ásta Katrín Viggósdóttir, nítján ára listakona. Hún tekur að sér að teikna myndir af gæludýrum fólks og eru teikningar hennar vinsælar tækifærisgjafir.

Ásta Katrín hefur teiknað frá því hún man eftir sér og stundar nú listnám við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. „Listnámið í FB heillaði mig og ég er núna búin með þrjú ár þar og hefur fundist það mjög gaman,“ segir hún.

Betri í að teikna en að mála

Ásta Katrín tekur að sér að gera blýantsteikningar eftir pöntunum og eru verk hennar vinsælar tækifærisgjafir. „Þetta byrjaði þannig að vinir og fjölskylda báðu mig stundum um að teikna fyrir sig myndir af fólki eða dýrum. Þetta breiddist svo út og brátt urðu fyrirspurnirnar fleiri og fleiri. Mér fannst sniðugt að reyna að þéna pening með því að gera það sem mér þykir skemmtilegast og prófaði að auglýsa mig á nokkrum vefsíðum. Ekki löngu eftir það urðu fyrirspurnirnar nánast yfirþyrmandi,“ útskýrir Ásta Katrín og bætir við að hún geri aðeins blýantsteikningar því hún sé ekki jafn fær með pensilinn.

„Ég er alveg hræðilegur málari, þess vegna held ég mig við blýantinn,“ segir hún hlæjandi.

Bolabítur Mynd eftir Ástu Katrínu.
Tímafrekt að teikna síðhærða hunda

Ásta Kristín fær helst fyrirspurnir um að teikna hunda og ketti og segir aðspurð að erfiðast sé að teikna síðhærða hunda og smádýr. „Það er tímafrekara að teikna síðhærða hunda en snögghærða. Svo geta smádýrin líka verið flókin því þar er svo mikið um smáatriði sem ég þekki ekki nógu vel.“

Í sumar hefur Ásta Kristín starfað með skapandi sumarhóp í Garðabæ en hópurinn samanstendur af listamönnum á aldrinum 17 til 25 ára. Uppskeruhátíð hópsins fer fram í Ásgarði milli klukkan 16 til 19 í dag.

Hægt er að panta verk eftir Ástu Kristínu með því að hafa samband við hana í gegnum Facebook.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.