„Ég hef aldrei áður haft til sölu jörð þar sem eru fyrirheit um olíuvinnslu,“ segir Magnús Leopoldsson hjá Fasteignamiðstöðinni sem nú er með til sölu helmingshlut í jörðinni Skógum III í Öxarfirði. Hugsanlegt er sagt að olía finnist þar í jörðu.
Skógar III eru í eigu bandaríska einsetumannsins Peter Michael Micari og félagsins Lífsvals sem nú tilheyrir Landsbankanum. Það er helmingshlutur Lífsvals sem nú er til sölu.
Í auglýsingu á vef Fasteignamiðstöðvarinnar kemur fram að tilraunir með borun eftir olíu hafa farið fram á Skógum III. „Sumir telja að þær lofi góðu,“ segir í auglýsingunni.
„Það getur vel verið að það sé olía víða en ég man aldrei eftir því neinn hafi látið sér detta í hug að bora,“ segir Magnús.
Jarðhitadeild Orkustofnunar tók fyrir um þremur áratugum sýni af gasi sem kemur upp á söndunum í Öxarfirði. Kristinn Einarsson, yfirverkefnastjóri hjá Orkustofnun, segir sýnin ekki hafa verið þess eðlis að rannsóknum hafi verið haldið áfram. Líklega stafi gasið frá surtarbrandi en ekki olíu.
„Við höfum ekki trú á að það sé mikil olía þarna - ef einhver er. Við teljum eiginlega engar líkur á að finna olíu uppi á landi á Íslandi. En við höfum samt ákveðinn viðbúnað á þessu svæði og erum með það í rannsókn, ef eitthvað skyldi finnast,“ segir Kristinn.
Hinrik Lárusson, sem átti helmingshlut í Skógum III um árabil þar til hann seldi hlutinn til Lífsvals, er annarrar skoðunar. Hinrik segist hafa borað á jörðinni á sínum tíma. Mikið af 96 gráðu heitu vatni kemur úr borholu þar: „Það er ekki spurning að það er olía þarna,“ segir Hinrik.
Peter Michael Micari, sem kveðst vera biskup í kaþólskum söfnuði, keypti helmingshlut í Skógum III vorið 1995. Haustið sama ár keypti Micari jörðina Kvennahól í Dalasýslu og hefur búið þar síðan. Í febrúar árið 2000 sagði Peter frá því í samtali við DV að hann hafi verið verulega hlunnfarinn við kaupin á Skógajörðinni. Hlutur Peters er ekki til sölu.

