Tónlist

Spila á stærstu þungarokkshátíð veraldar

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Klárir í slaginn Ophidian I sigraði í keppninni Wacken Metal Battle í vor. Nú halda þeir til Þýskalands og spila á stærstu þungarokksveit veraldar.
Klárir í slaginn Ophidian I sigraði í keppninni Wacken Metal Battle í vor. Nú halda þeir til Þýskalands og spila á stærstu þungarokksveit veraldar.
„Þetta verður generalprufan fyrir Wacken, á tuttugufalt minni stað,“ segir Halldór Símon Þórólfsson, gítarleikari metalsveitarinnar Ophidian I, sem spilar á Bar 11 í kvöld.

Ophidian I heldur til Þýskalands í næstu viku þar sem hún mun spila á stærstu þungarokkshátíð veraldar, Wacken Open Air, en sveitin sigraði í keppninni Wacken Metal Battle sem haldin var í Hörpu í vor.

Meðlimir hljómsveitarinnar koma saman á Bar 11 í kvöld og leyfa æstum aðdáendum að heyra settlistann sem spilaður verður í Þýskalandi en þetta er í fyrsta skipti sem hljómsveitin treður upp á Wacken. „Þetta verður alveg geðveikt. Ragnar trommari er samt að fara í þriðja skiptið, þó ekki með okkar hljómsveit.“

Og er hann að miðla reynslunni áfram til ykkar hinna? „Já hann reynir það. Svona eftir bestu getu,“ segir Halldór og hlær.

Mörg stór nöfn koma fram á hátíðinni í ár en stærstu nöfnin eru án efa Rammstein, Deep Purple og Alice Cooper. „Við erum reyndar ekkert rosalega hrifnir af þessum böndum. Við erum meira í dauðarokkinu en þetta eru samt allt heimsklassa bönd,“ segir Halldór.

Frítt er á tónleikana á Bar 11 í kvöld og hefjast þeir kl. 23. Hljómsveitin Blood Feud mun einnig koma fram en þeir hrepptu annað sætið í Wacken Metal Battle í vor.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×