Erlent

Meðlimi Pussy Riot synjað um reynslulausn

Þorgils Jónsson skrifar
Nadezhda Tolokonnikova var í dag synjað um reynslulausn. Hún hefur setið í fangelsi frá því mars á síðasta ári eftir mótmælatónleika sem hún og félagar hennar í pönksveitinni Pussy Riot stóðu fyrir í kirkju í Moskvu.
Nadezhda Tolokonnikova var í dag synjað um reynslulausn. Hún hefur setið í fangelsi frá því mars á síðasta ári eftir mótmælatónleika sem hún og félagar hennar í pönksveitinni Pussy Riot stóðu fyrir í kirkju í Moskvu. Mynd/AP

Réttur í Rússlandi hafnaði í dag beiðni Nadezhda Tolokonnikova um reynslulausn. Hún hefur setið í fangelsi frá því mars á síðasta ári en hún var, ásamt tveimur félögum sínum í pönksveitinni Pussy Riot sakfelld fyrir óspektir í kirkju í Moskvu þar sem þær héldu tónleika og mótmæltu Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Þær hlutu tveggja ára fangelsisdóma.



Rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að Tolokonnikova hefði ekki sýnt iðrun vegna gjörða sinna og ætti því ekki rétt á reynslulausn. Hún hefur neitað að játa sekt í málinu þar sem hún telji sig ekki hafa gert neitt rangt.



Þetta er sama niðurstaða og varð í máli Maríu Aljokina, stöllu hennar, fyrr í vikunni, en þriðju konunni, Jekaterinu Samutsevitsj, var sleppt úr haldi í október.



Tolokonnikova og Ajokina muni því sennilega þurfa að sitja af sér allan dóminn, en verður sleppt úr haldi á næsta ári.



Pussy Riot er hópur ungra andófskvenna sem hefur síðustu árin staðið fyrir mótmælum gegn stjórnvöldum, vegna meintrar spillingar og skoðanakúgunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×