Lífið

Hlaupa fyrir nýjasta fjölskyldumeðliminn

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Um helmingur vinahópsins kemur til með að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar barnaspítala Hringsins.
Um helmingur vinahópsins kemur til með að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar barnaspítala Hringsins. MYND/Úr einkasafni
„Fyrr í ár varð einn úr hópnum pabbi í fyrsta sinn en strákurinn hans fæddist rúmlega tveimur mánuðum fyrir tímann. Þetta var því mjög tvísýnt um tíma hvort þetta myndi snúast upp í harmleik, en sem betur fer, og þá aðallega fyrir tilstilli barnaspítalans, var aðstæðum snúið við og þessi strákur er heilbrigður, efnilegur og fjallmyndarlegur í dag,“ segir Haukur Hólmsteinsson, einn úr hópi þeirra sem hlaupa fyrir barnaspítala Hringsins í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst.

Vinahópur Hauks er stór og samanstendur mestmegnis af strákum sem hafa haldið sambandi síðan þeir voru í grunnskóla á Seltjarnarnesi. Þeir hafa því flestir þekkt hvorn annan meira en hálfa ævina.

„Við erum þéttur vinahópur og höldum meðal annars úti innri vef þar sem við skipuleggjum reglulega hittinga og síðan er skyldumæting einu sinni á ári um jólin þar sem árið er gert upp,“ útskýrir Haukur, léttur í bragði.

Það er mikil fjölskyldustemming í hópnum.

„Við fögnum velgengni og erum til staðar fyrir hvorn annan þegar eitthvað bjátar á, þess vegna erum við sem komumst, sem er í kringum helmingur hópsins, að taka okkur saman í ár og reyna að gera eitthvað fyrir barnaspítala Hringsins,“ útskýrir Haukur.

„Lífið minnir okkur stundum harkalega á það hversu stjórnlaust það er. Sem betur fer í okkar tilviki vorum við það lánsöm að allt fór vel,“ bætir Haukur við og segist aldrei geta endurgoldið Hringnum það dásamlega starf sem þar er unnið.

„En það er auðvelt að leggja til þetta litla framlag í bili. Við hvetjum fólk að kynna sér Barnaspítala Hringsins og það starf sem, mætti helst líkja við regluleg kraftaverk, sem þar er unnið,“ segir Haukur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.