Lífið

Alltaf fjör um Verslunarmannahelgi

Sara McMahon skrifar
Ein stærsta ferðahelgi ársins nálgast óðfluga. Fréttablaðið tók púlsinn á þremur einstaklingum sem ætla að lyfta sér upp um verslunarmannahelgina. Ein tekur stefnuna vestur, önnur til Eyja og sá þriðji ætlar að trítla niður Bergstaðastrætið á Faktorý.

Anný Rut Hauksdóttir, starfsmaður í heildverslun

Hvert ferðu um helgina?
Ég fer á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.



Hefur þú farið þangað áður um verslunarmannahelgi?
Já, alveg nokkrum sinnum.

Af hverju varð þessi staður fyrir valinu?Við erum stór hópur sem hefur farið í nokkur ár í röð núna. Það kemur ekkert annað til greina hjá okkur en þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, enda með fallegri stöðum á landinu.

Með hverjum ferðu? Með vinkonuhópnum.

Hvað er algjörlega nauðsynlegt að hafa með sér á staðinn? Lopapeysa er algjört must. Converce-skór, dúnvesti, gönguskór, regnkápa ef skyldi rigna, en ég vona að veðurspáin verði góð við okkur. Svo má ekki gleyma partíhattinum, hann er líka nauðsynlegur.

Hvað er nauðsynlegt að sjá eða gera á staðnum? Sálin og Stuðmenn standa upp úr hjá mér enda langt síðan þeir voru að spila á þjóðhátíð. Nú verður Ingó Veðurguð með brekkusönginn sem er skemmtilegt. Hápunktur ferðarinnar er oft þegar þjóðhátíðarlagið er spilað. ÍBV og FH að einnig að spila í Pepsi-deildinni svo ég læt það ekki fram hjá mér fara.

Hver er eftirminnilegasta verslunarmannahelgin þín? Eftirminnilegasta þjóðhátíðin mín var árið 2002. Það var alveg klikkað veður, en ég skemmti mér alltaf konunglega þrátt fyrir vont veður. Þjóðhátíðin í fyrra 2012 var einnig algjör snilld. Gott veður og frábært fólk sem var með mér.

Hvaða verslunarmannahelgi var hræðilegust? Veistu, ég held að ég eigi enga hræðilega verslunarmannahelgi. Þetta er alltaf svo skemmtilegt.





Steinþór Helgi Arnsteinsson, umboðsmaður

Hvert ferðu um helgina? Ég fer í raun ekki langt, trítla bara niður Bergstaðastrætið og yfir á Faktorý, þar sem Innipúkinn fer fram.

Hefur þú farið þangað áður um verslunarmannahelgi? Já, margoft. Þeir sem eitthvað þekkja til miðbæjarins vita að þetta er ein besta helgi ársins til að eyða þar, og þá er hvergi betra að vera en á Innipúkanum.

Af hverju varð þessi staður fyrir valinu? Því Innipúkinn er svo yndislega frábær. Svo er ég líka reyndar einn af skipuleggjendum hátíðarinnar í ár.

Með hverjum ferðu? Kærustunni, stjúpsyninum, mömmu og bara öllum þessum helstu.

Hvað er algjörlega nauðsynlegt að hafa með sér á staðinn? Nike Free Run-strigaskór, til að hoppa og skoppa. Hlýrabolur því maður svitnar svo mikið við að dansa inni á Faktorý. Sólarvörn því besta veðrið verður í miðbænum og denim-flík/ur. Það verður að vera eitthvað denim!

Hvað er nauðsynlegt að sjá eða gera á staðnum? Geiri Sæm auðvitað! Og síðan allir hinir, erfitt að gera upp á milli. Síðan verður gaman að kíkja á Rykkrokk uppi í Breiðholti. Ég ætla líka að hefja helgina á Lunch Beat í hádeginu á föstudaginn. Ég hlakka síðan til að slaka vel á á sunnudeginum á Kexi, þar sem við verðum með dagskrá á torginu fyrir utan hjá þeim.

Hver er eftirminnilegasta verslunarmannahelgin þín? Hef átt margar góðar helgar með móður minni. Við fórum til dæmis á Halló Akureyri á sínum tíma, ásamt öðru góðu fólki. Ég var þá á fermingaraldri – og vildi taka þátt í einhverju uppbyggilegu, fór í klettaklifur en endaði á slysó með gat á hausnum. Síðan þá hef ég farið meira í grundvallaratriðin eins og bjórdrykkju og að dilla krullunum við góða tóna.

Hvaða verslunarmannahelgi var hræðilegust? Ég man sem betur fer ekki eftir neinni. Samt fór á ég á Eldborgarhátíðina og hef farið á Þjóðhátíð. Maður á ekki að gera neitt hræðilegt um verslunarmannahelgina, bara hafa gaman.





Sunna Ben, myndlistarkona

Hvert ferðu um helgina?
Ég er að fara á Mýraboltann á Ísafirði.

Hefur þú farið þangað áður um verslunarmannahelgi? Eins og ég hef oft farið til Ísafjarðar, enda ættuð þaðan, þá hef ég samt aldrei farið þangað um verslunarmannahelgi áður, og hlakka til að prófa.

Af hverju varð þessi staður fyrir valinu? Það er nú aðallega vegna þess að María Rut vinkona mín byrjaði að smala saman nokkrum hressum stelpum í lið í mýrarboltann og þegar hún bauð mér ákvað ég að tékka á þessu, ég stóðst ekki mátið að verja helgi með svona hressu gengi. Svo finnst mér líka yndislegt á Ísafirði og þetta er fullkomið tækifæri til að heilsa upp á ættingja þar í bæ.

Með hverjum ferðu? Ég fer með snillingunum Maríu Rut Kristinsdóttur, Steingerði Sonju Þórisdóttur og Ólöfu.

Hvað er algjörlega nauðsynlegt að hafa með sér á staðinn? Sko, ég er voða fegin að hafa ákveðið að fórna kúlinu til að vera í skátunum þegar ég var gelgja, ég er ágæt í að pakka og í að ferðast. Við erum ekki í tjaldi svo umstangið og undirbúningurinn helmingast að minnsta kosti en það er alltaf mikilvægt að vera með auka sokka og skó, nærföt, sundföt, hlý föt, lopapeysur og regnstakka. Veðrið á Íslandi er svo ófyrirsjáanlegt að ég tek frekar áhættuna á að vera með of mikið en of lítið. En hlýju fötin eru fremst í flokki, ég hef brennt mig á því að fara á LungA á Seyðisfyrði í leðurjakka, gollu og leggings, og það var alls ekki nóg.

Hvað er nauðsynlegt að sjá eða gera á staðnum? Ég hlakka ógeðslega til að sjá mýrarboltann sjálfan, ég er ekki viss um að ég þori að taka þátt en kannski tekst mér að þamba í mig kjark. Svo hlakka ég til að sjá Retro Stefsson spila, það er alltaf ávísun á gleði og stuð.

Hver er eftirminnilegasta verslunarmannahelgin þín? Þetta er erfitt, ég hef átt margar skemmtilegar. En það stendur vissulega upp úr þegar ég var 16 ára og fór með öllum goth-vinahópnum mínum til Akureyrar á fyllirí. Þetta var í fyrsta sinn sem við höfðum ferðast saman og allir voru stífmálaðir og nákvæmlega stílíseraðir allan tímann. Ég hef nokkrum sinnum farið til Akureyrar með mismunandi vinahópum og það hefur alltaf verið ótrúlega gaman. Svo var líka yndislegt í fyrra þegar við fjölskyldan héldum ættarmót uppi í sumarbústað og héldum brennu þar sem við brenndum allt gamla draslið sem enginn vildi nota lengur, það var fáránlega gaman.

Hvaða verslunarmannahelgi var hræðilegust? Mér dettur engin hræðileg verslunarmannahelgi í hug, en það var frekar hræðilegt þegar ég var á leiðinni til Akureyrar með vinkonum mínum 2006 og ég fékk að hoppa út í móa að pissa, svo þegar ég var búin og ætlaði að girða upp um mig varð mér litið á lærið á mér þar sem á sat kónguló á stærð við hausinn á mér. Mér brá mikið og stökk af stað að reyna að hrista hana af með allt niðrum mig, kom svo inn í bíl og skalf af klígju á meðan vinkonurnar hlógu alla leið til Akureyrar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.