Lífið

Lára Ómars: Pabbi er búinn að vera mjög þægilegur

Sara McMahon skrifar
Lára Ómarsdóttir vinnur að gerð nýrra ferðaþátta ásamt föður sínum, Ómari Ragnarssyni.
Lára Ómarsdóttir vinnur að gerð nýrra ferðaþátta ásamt föður sínum, Ómari Ragnarssyni. Fréttablaðið/Arnþór
„Þátturinn ber vinnuheitið Fjarðarstiklur, þannig þeir verða eitthvað í anda Stiklanna. Við pabbi förum á staði sem gætu verið áhugaverðir fyrir Íslendinga, og aðra, að heimsækja. Þetta eru allt staðir sem eiga það til að gleymast, ólíkt Þingvöllum og Mývatni,“ útskýrir fréttakonan Lára Ómarsdóttir. Hún vinnur nú að gerð sjónvarpsþátta ásamt föður sínum, Ómari Ragnarssyni. Þættirnir eru fræðandi ferðaþættir í anda hinna vinsælu sjónvarpsþátta Ómars, Stiklur.

Hugmyndin að þáttunum er frá Láru komin og eru þeir byggðir á svonefndum „mömmuferðum“ sem hún og börnin hennar fara í á hverju ári. „Ég fer alltaf með börnin mín í „mömmuferðir“ og reyni þá að taka fyrir svolítinn bút af landinu og sýna þeim áhugaverða staði sem þar er að finna og tvinna inn í sögu staðarins og annan fróðleik. Þetta eru fræðandi ferðir og þættirnir eiga að vera fræðandi ferðaþættir,“ segir hún glaðlega.

Samstarfið gott

Lára er þáttastjórnandi Fjarðarstikla en hittir föður sinn á hinum ýmsu stöðum sem hann þekkir vel til. Þetta er í fyrsta sinn sem feðginin starfa saman og segir Lára að samstarfið hafi gengið ljómandi vel. „Þetta er búið að vera virkilega gaman. Við höfum aldrei unnið saman áður og samstarfið hefur gengið ljómandi vel. Pabbi er búinn að vera mjög þægilegur og bara einu sinni gleymt sér í smástund,“ segir hún og hlær.

Lára ekur á milli tökustaða en Ómar kýs heldur að fljúga. Hann hefur þó neyðst endrum og sinnum til þess að sitja með henni í bílnum. „Hann sat í með mér þegar við fórum upp í Hvalfjörð, þá tók því ekki að fljúga. Ég held það hafi verið í fyrsta sinn sem hann hefur verið farþegi í bíl með mér. Svo getur hann auðvitað ekki keyrt heim að bæjum í flugvél og þá fær hann far með mér.“

Þættirnir verða sýndir í Sjónvarpinu á nýju ári og er tilgangur þeirra að gefa fólki hugmyndir að skemmtilegum ferðastöðum fyrir næsta sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.