Skoðun

Gegn þjóðarvilja?

Helgi Magnússon skrifar
Mikill meirihluti landsmanna vill ljúka viðræðum við Evrópusambandið samkvæmt nýrri Gallupkönnun sem birt var í lok ágúst. Í Fréttablaðinu kom fram að 54% svarenda vilja ljúka viðræðum, 35% vilja slíta þeim en 11% taka ekki afstöðu.

61% vill ljúka viðræðum

Ef einungis er horft til þeirra sem tóku afstöðu vill 61% svarenda ljúka viðræðum en 39% slíta þeim.

Þetta gengur þvert á þann síbyljuáróður sem einangrunarsinnar hafa haldið uppi á undanförnum vikum um að landsmenn vilji slíta viðræðum. Þessi nýja könnun Gallup svarar því skýrt hver þjóðarvilji í þessum efnum er núna. Ljóst er að vanstilltur áróður andstæðinga aðildarviðræðna að undanförnu hefur ekki virkað á kjósendur.

Ríkisstjórnin þarf að átta sig á því sem fyrst hvort það geti talist mikilvægt forgangsmál að fara gegn þjóðarvilja í þessu máli og efna til ófriðar um það í stað þess að beina kröftunum að lausn þeirra brýnu efnahagsmála sem enn bíða úrlausnar.

Loforð Bjarna

Þá er það í fersku minni – og hefur ítrekað verið rifjað upp í fjölmiðlum – að formaður Sjálfstæðisflokksins lofaði því hátíðlega FYRIR kosningar að kosið yrði um framhald aðildarviðræðnanna.

Við það loforð verður hann að standa. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki látið það viðgangast að utanríkisráðherra fremji vísvitandi skemmdarverk á allri þeirri vinnu sem unnin var á síðasta kjörtímabili í aðildarviðræðum við ESB. Þjóðin á að segja til um framhald málsins. Efna þarf til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hið fyrsta.

Orð skulu standa

Því verður ekki trúað að formaður Sjálfstæðisflokksins svíki kosningaloforð sín. Við því þarf ekki að búast. Það yrðu allavega mikil og vond tíðindi ef svo færi. Ég vil trúa því að Bjarni Benediktsson tryggi það að landsmenn hafi síðasta orðið um framhald aðildarviðræðnanna við ESB og að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin fyrr en seinna.

Fram til þessa hafa allir formenn Sjálfstæðisflokksins kappkostað að standa við loforð sín, einkum og sér í lagi kosningaloforð. Vonandi verður engin breyting á því.




Skoðun

Sjá meira


×