Innlent

Samskiptabrestur tafði morðrannsókn á Egilsstöðum

Boði Logason skrifar
Saksóknari, verjandi og dómararnir þrír skoðuðu morðvettvanginn á Egilsstöðum við aðalmeðferðina í ágúst.
Saksóknari, verjandi og dómararnir þrír skoðuðu morðvettvanginn á Egilsstöðum við aðalmeðferðina í ágúst. Fréttablaðið/Ingimar
Lögreglumenn sem komu á heimili Friðriks Brynjars Friðrikssonar aðfaranótt 8. maí síðastliðinn vissu ekki að hann hefði í samtali sínu við Neyðarlínuna skömmu áður sagst halda að hann hefði orðið manni að bana.

Aðalmeðferð í málinu fór fram á Egilsstöðum í lok ágúst en á meðal gagna málsins er símtal Friðriks Brynjars við Neyðarlínuna um klukkan eitt eftir miðnætti þessa umræddu nótt.

Þegar starfsfólk Neyðarlínunnar fékk símtalið frá Friðriki sendi það skilaboðin áfram til fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra, sem hafði svo samband við lögregluna á Egilsstöðum. Svo virðist sem eitthvað hafi skolast til á þessum boðleiðum því lögreglumenn sem komu á vettvang höfðu engar upplýsingar fengið um að Friðrik hefði haft á orði að hann hefði orðið manni að bana skömmu áður.

Þau skilaboð sem lögreglumenn fengu voru að átök hefðu átt sér stað í íbúð hans og hugsanlega hefði einhver fallið fram af svölum. Í samtali við lögreglumennina neitaði Friðrik Brynjar að hafa hringt á Neyðarlínuna og var ekki handtekinn – enda engin ummerki um átök í íbúð hans.

Um sjö klukkustundum síðar fannst Karl Jónsson, nágranni Friðriks Brynjars, í íbúð sinni látinn eftir að hafa verið stunginn 92 sinnum. Þá var Friðrik Brynjar handtekinn, um klukkan hálf níu um morguninn, grunaður um morðið. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan.

Í aðalmeðferð málsins í lok ágúst var fjallað um símtal Friðriks Brynjars við Neyðarlínunna. Einn lögreglumaður sem hafði verið kallaður á vettvettvang bar meðal annars að tilkynningin frá Neyðarlínunni hefði verið nokkuð óljós.

Lögreglumenn gengu ásamt sjúkraflutningamönnum í kringum blokkina með vasaljós og beindu kösturum lögreglubifreiðarinnar upp á svalir fjölbýlishússins, en einblíndu á íbúð Friðriks Brynjars. Á sama tíma lá Karl látinn á svölum íbúðar sinnar.

Hægt að er leiða líkur að því að rannsókn málsins hafi seinkað um sjö klukkustundir vegna þessa misskilnings neyðarlínunnar, fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á Egilsstöðum. Friðrik Brynjar var nokkuð drukkinn þegar hann hringdi á Neyðarlínuna, og samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var hann nokkuð óskýr í máli.

Hvorki Hjálmar Björgvinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá fjarskiptamiðstöð, né lögreglan á Eskifirði vildu tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×