Skoðun

Staða tækni- og hugverkafyrirtækja á Íslandi

Svana Helen Björnsdóttir skrifar
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er því slegið föstu að öflugt atvinnulíf sé undirstaða vaxtar og velferðar. Fram kemur að ríkisstjórnin muni leggja kapp á að skapa starfsumhverfi sem ýtir undir fjárfestingu og fjölgun starfa, ekki síst hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Sérstök áhersla verði lögð á vöxt útflutningsgreina, nýsköpun og nýtingu vaxtartækifæra framtíðarinnar, auk þess sem tryggja á jafnræði gagnvart lögum.

Samtök iðnaðarins lýstu sig strax í vor reiðubúin að starfa með nýrri ríkisstjórn og stjórnvöldum og leggja m.a. fram vel ígrundaðar áætlanir og útfærslur á lykilverkefnum til að vinna að settu marki.

Hlutur tækni- og hugverkaiðnaðar á Íslandi hefur vaxið hröðum skrefum á undanförnum árum og nemur nú um 20% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Hundruð frumkvöðla- og sprotafyrirtækja hafa sprottið upp og tugir tæknifyrirtækja hafa náð góðri fótfestu á alþjóðlegum mörkuðum á fjölbreyttum sérsviðum. Aðgangur að náttúruauðlindum takmarkar ekki vöxt þessara fyrirtækja – sem fyrst og fremst byggir á mannauði, þekkingu, menntun og alþjóðlegum markaðstengslum. Þrátt fyrir góðan árangur í uppbyggingu þessara fyrirtækja hér á landi er ástæða til að hafa áhyggjur af vaxandi fjölda fólks og fyrirtækja á leið úr landi.

Flutt úr landi

Það sem af er ári hafa nokkur vaxandi tæknifyrirtæki í Samtökum sprotafyrirtækja flutt úr landi ásamt dýrmætu starfsfólki. Á sama tíma eru margar nágrannaþjóðir okkar í markvissum aðgerðum að styðja við nýsköpun og í mikilli sókn að laða til sín nýsköpunarfyrirtæki, t.d. Bretland.

Þessari þróun þarf að snúa við – við höfum þegar tapað allt of mörgum fyrirtækjum og allt of mörgum dýrmætum einstaklingum úr landi.

Þá skiptir öllu máli að hafa gjaldmiðil án hafta sem gjaldgengur er á alþjóðamarkaði, samkeppnishæft starfsumhverfi og virk tengsl við helstu markaðssvæði. Stöðvun verkefnis sem felur í sér bætta hagtölugerð um íslenskan iðnað sem til stóð að fjármagna með IPA-stuðningi er ekki til þess fallin að bæta upplýsingar um stöðu og þróun greinarinnar.

Í stefnumótun tækni- og hugverkaiðnaðarins kemur fram sú framtíðarsýn að Ísland verði aðlaðandi miðstöð tækni- og hugverkafyrirtækja sem grunnstoð í útflutningi og jákvæðum viðskiptajöfnuði. Skilgreind hafa verið áhersluverkefni sem miða að því að bæta forsendur greinanna og flýta fyrir uppbyggingu og árangri. Flest snúast þau um að ná umbótum í starfsumhverfi fyrirtækja almennt og ná því í raun langt út fyrir raðir tækni- og hugverkafyrirtækja. Nefna má bætta hagtölugerð til að fylgjast með árangri og uppbyggingu, eflingu Tækniþróunarsjóðs og aukið svigrúm í endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar, verkefnið „Betri þjónusta fyrir minna fé“, meiri áherslu á grunnmenntun í raunvísindum og tækni, einföldun reglna og skattahvata til að laða hæfileikaríkt fólk til starfa á Íslandi og afnám gjaldeyrishafta.

Fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði hafa mörg hver góða möguleika á vexti og útflutningi og þau hafa möguleika á að skapa verðmæt og vel launuð störf séu réttu forsendurnar fyrir hendi.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×