Skoðun

Að „víla og díla“

Elín Hirst skrifar

Á fundi Viðskiptaráðs og í viðtali í Viðskiptablaðinu nýlega kom fram lýsing Andra Guðmundssonar, framkvæmdastjóra H.F. Verðbréfa, á íslenska fjármálaheiminum í dag. Sú lýsing vakti sérstaka athygli mína. Það sem eykur á þunga orða Andra er að hann er sjálfur í forsvari fyrir fyrirtæki innan íslenska fjármálageirans.



Andri fullyrðir að starfsmenn fjármálafyrirtækja séu sjálfir enn að „víla og díla“ með sinn persónulega fjárhag í þessum útboðum, eins og Andri orðar það. Andri heldur áfram: „Ekki nóg með að bankarnir eigi þessi fyrirtæki, láni þessum fyrirtækjum og kaupi fyrirtækin að einhverju leyti eða aðilar á þeirra vegum eru starfsmenn bankanna líka að fjárfesta og taka þátt í þessum útboðum. Þetta er eitthvað sem mér finnst að við hefðum átt að læra af reynslunni 2008.“



Þá segir Andri fulltrúa fjármálageirans koma fram með hroka og að hlutafjárútboð sem ráðist hefur verið í eftir hrun séu ekki til þess fallin að auka tiltrú fólks á markaðnum. Auðvitað er þetta bara ein rödd og athyglisvert að heyra frá fleirum innan fjármálaheimsins um þessa þróun.



Í kosningabaráttunni í vor lagði ég áherslu á eftirfarandi í mínum málflutningi:

Það þarf að skera upp herör gegn græðgi, sjálfhygli og óheiðarleika og þeirri áráttu, sem því miður alltof margir eru haldnir í okkar þjóðfélagi, að maka krókinn, hvar og hvenær sem þeir komast í aðstöðu til þess og yfirleitt alltaf á kostnað annarra. Hér er þörf á hugarfarsbreytingu hjá þjóðinni og þar á Sjálfstæðisflokkurinn að vera í fararbroddi. Mér hefur fundist mjög gott að leita í smiðju forystumanna okkar á fyrri tímum, hvernig litu þeir á málin. Jón Þorláksson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði til dæmis: „Sá sem vill leita eftir efnalegri velgengni fyrir sjálfan sig verður að gjöra það með því fyrst og fremst að leitast við að fullnægja sem bezt þörfum annarra.“



Ég hvet bæði Alþingi og ríkisstjórn að setja fjármálastofnunum þær leikreglur í eitt skipti fyrir öll sem duga til þess að við stefnum ekki þjóðarhag í hættu á nýjan leik eins og 2008.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×