Bakþankar

Æskuminning að hausti

Sara McMahon skrifar
Það er komið haust. Trén fella lauf sín, grasið fölnar og það kólnar í veðri. Mér þykir þessi árstími einstaklega fallegur, jafnvel þótt gömul æskuminning sæki ætíð á mig á haustin.

Minningin stendur mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Ætli ég hafi ekki verið um tíu ára gömul og foreldrar mínir höfðu keypt á mig úlpu frá fatamerkinu Oilily í Dublin. Úlpan var hin fallegasta; rauðgul að lit, eins og blóðappelsína, og með fjólubláum rennilás. En sá hængur var á gjöf foreldra minna að ég mátti ekki klæðast henni nema við hátíðleg tækifæri. Úlpan var nefnilega hugsuð sem spariflík.

Eitt kvöld, að kvöldmat loknum, fékk ég leyfi til að fara út að leika mér. Ég laumaðist til að klæða mig í Oilily-úlpuna og var við að hendast út um dyrnar þegar móðir mín kippir í hnakkadrambið á mér og skipar mér í gömlu úlpuna. Mér þótti þetta ömurlegt enda þráði ég ekkert heitar en að monta mig af nýju úlpunni. En móðir mín sat föst við sinn keip og eftir töluvert nöldur af minni hálfu lét ég loks undan.

Ég arkaði fúl á móti út á leikvöll í gömlu, ljótu (að mér fannst) úlpunni og hitti þar vini mína. Stuttu eftir að leikar hófust hafði ég gleymt fýlunni og tekið gleði mína á ný. Í hamaganginum miðjum tók ég upp á því að príla upp í tré. Hátt, hátt upp og svo aftur niður. Á niðurleiðinni skrikaði mér þó fótur og ég féll á stéttina fyrir neðan mig. Lukkulega slapp ég að mestu með skrekkinn – nema ég hafði rifið gat á úlpuna mína og að auki lent ofan í svolitlum olíupolli.

Ég man enn þann dag í dag hversu fegin ég var að hafa ekki farið út í spariflíkinni – það hefði verið hræðilegt að eyðileggja hana svona stuttu eftir montið. En það var einmitt á þessari stundu sem ég áttaði mig á því að móðir mín hafði haft rétt fyrir sér. Og það rifjast upp fyrir mér á hverju hausti.






×