Tónlist

Sömdu við eina stærstu útgáfu heims

Freyr Bjarnason skrifar
Rokktríóið The Vintage Caravan hefur gert útgáfusamning við þýska fyrirtækið Nuclear Blast.
Rokktríóið The Vintage Caravan hefur gert útgáfusamning við þýska fyrirtækið Nuclear Blast. fréttablaðið/vilhelm
„Við erum alveg í skýjunum yfir þessu. Þetta er yndislegt,“ segir Alexander Örn Númason, bassaleikari The Vintage Caravan.

Rokktríóið hefur skrifað undir samning við þýska útgáfufyrirtækið Nuclear Blast, sem er stærsta sjálfstæða þungarokksútgáfa heims. Á meðal þekktra hljómsveita sem eru á mála hjá fyrirtækinu eru Sepultura, Anthrax, Soulfly, Biohazard, Exodus og Overkill.

Flestar hljómsveitirnar hjá Nucelar Blast eru á meðal þeirra fremstu í þungarokki eða dauðarokki en að sögn Alexanders Arnar eru sjö til átta sveitir í klassíska rokkgeiranum eins og The Vintage Caravan.

Aðspurður segir Alexander Örn að samningurinn kveði á um að næstu plötur The Vintage Caravan komi út hjá Nuclear Blast. Einnig er stefnt á að önnur plata sveitarinnar, Voyage sem kom út hjá Senu í fyrra, komi út í janúar úti um allan heim í nýjum umbúðum.

„Þetta gerðist eiginlega óvart. Þetta er í raun og veru einu manni að þakka,“ segir bassaleikarinn um samninginn. „Það er þýskur maður sem við kynntumst á Eistnaflugi árið 2012. Hann er búinn að láta hlutina gerast að okkur óafvitandi.“

Auk útgáfusamningsins hefur The Vintage Caravan gert samning við austurríska bókunarskrifstofu. Hljómsveitin spilar á Roadburn-hátíðinni í Hollandi í apríl og líklega fer hún í tónleikaferðalag í janúar þegar platan kemur út.

Fáið þið ekki góðan pening fyrir samninginn? „Þetta er þokkalegur peningur. Þetta snýst aðallega um að við fáum nægt fjármagn til að gera plötu og til að koma okkur út. Við erum ekkert að tala um tugi milljóna en það verður ágætlega séð um okkur.“

Nýtt myndband The Vintage Caravan er komið út við lagið Expand Your Mind. Leikstjóri var Bowen Staines sem leikstýrði einnig myndböndunum við Fjöru með Sólstöfum og Gleipni með Skálmöld. Það var tekið upp á skemmtistaðnum fyrrverandi, Faktorý.

The Vintage Caravan 'EXPAND YOUR MIND' (Official Video) from Bowen Staines on Vimeo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×