Skoðun

Siðmennt og áhrifin á íslenskt samfélag

Hope Knútsson skrifar
Siðmennt, félag siðrænna húmanista, er skráð lífsskoðunarfélag. Félagið er málsvari húmanisma (manngildisstefnu) og frjálsrar hugsunar óháð trúarsetningum og hefur siðferði og skynsemi að leiðarljósi.

Félagið stendur fyrir veraldlegum og húmanískum athöfnum.

Hópurinn sem skipulagði fyrstu borgaralegu ferminguna á Íslandi veturinn 1988-1989 stofnaði Siðmennt ári seinna, í febrúar 1990, til þess að tryggja að þessi valkostur við kirkjulega fermingu mundi halda áfram að vera fyrir hendi. Þá var strax stefnt að því að bjóða upp á fleiri veraldlegar athafnir á mikilvægum tímamótum í lífi fólks.

Árið 2007 sendi systurfélag Siðmenntar, Human-Etisk Forbund í Noregi, kennara sem þjálfaði fyrsta hóp íslenskra veraldlegra athafnarstjóra og síðan 2008 höfum við boðið upp á veraldlega eða húmaníska nafngjöf, giftingu og útför.

Fjöldi athafna er kominn upp í rúmlega 160. Í maí síðastliðnum varð Siðmennt lögformlegt skráð lífsskoðunarfélag og með því urðu athafnarstjórar félagsins lögformlegir vígslumenn í giftingum. Í kjölfarið hefur fjöldi giftinga hjá félaginu þrefaldast. Um 2000 Íslendingar hafa fermst borgaralega og undanfarin ár hafa rúmlega 200 börn kosið að fermast borgaralega ár hvert. Félagið heldur nú sjö undirbúningsnámskeið og 6-7 athafnir á ýmsum stöðum á landinu á hverju ári.

Tilvera Siðmenntar hefur haft margvísleg jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Sem dæmi má nefna að:

  • Siðmennt hefur kynnt fyrir Íslendingum orðið lífsskoðunarfélag sem er nú almennt notað.

  • Siðmennt hefur auðgað íslenskt samfélag með því að bjóða upp á nýja valkosti í nafngjöfum, fermingum, hjónavígslum og greftrunum, sem eru mikilvæg tímamót og þ.a.l. fengið fólk til að hugsa um lífsskoðun sína og gildismat.

  • Siðmennt hefur haldið fyrirlestra, málþing og ráðstefnur; fengið fræga fyrirlesara hingað til landsins t.d. Richard Dawkins, James Randi, PZ Myers, Maryam Namazie, Dan Barker, Julia Sweeney og Brannon Braga.

  • Siðmennt hefur gefið út (í samstarfi við Ormstungu) fyrstu bókina á íslensku um húmanisma.

  • Siðmennt hefur unnið að fullu trúfrelsi/sannfæringarfrelsi, aðskilnaði ríkis og kirkju og veraldlegu skólahaldi þar sem börnum er ekki mismunað vegna trúar- eða lífsskoðana foreldra.

  • Siðmennt veitir árlega tvenns konar verðlaun: Húmanistaviðurkenningu og Fræðslu- og vísindaviðurkenningu.

  • Siðmennt styður mannréttindabaráttu minnihlutahópa, t.d. samkynhneigðra og transfólks.

  • Siðmennt stendur fyrir veraldlegri hugvekju fyrir setningu Alþingis.

  • Siðmennt styður mannvirðingu, mannréttindi og víðsýnt, fjölbreytt veraldlegt samfélag.



Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×