Erlent

Vonir glæðast um að saman nái í Washington

Þorgils Jónsson skrifar
Barack Obama segist tilbúinn til að ræða við repúblikana um lausn á deilum sem ógna fjármálastöðugleika heimsins.
Barack Obama segist tilbúinn til að ræða við repúblikana um lausn á deilum sem ógna fjármálastöðugleika heimsins. Nordicphotos/AFP
Eftir margra vikna pattstöðu á bandaríska þinginu létu repúblikanar í fulltrúadeildinni í það skína í gær að þeir væru til viðræðu um að opna aftur fyrir ríkisútgjöld og hækka skuldaþak ríkisins til skamms tíma. Það kæmi í veg fyrir greiðslufall bandaríska ríkisins en þeir setja sem skilyrði að hafnar verði viðræður um að draga úr útgjöldum ríkisins og að ný lög um sjúkratryggingar verði endurskoðuð.

Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði í samtali við fjölmiðla í gær að hann væri reiðubúinn til þess að ræða við „sanngjarna repúblikana“ um lausn mála.

Rúm vika er síðan lokað var á alla þjónustu ríkisins sem ekki er skilgreind sem bráðnauðsynleg og um 450.000 starfmenn sitja nú heima. Þá stefnir í að ríkið geti ekki greitt af skuldum sínum eftir 17. október sem myndi þýða greiðslufall með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir alþjóðahagkerfið.

Þetta er í annað skiptið á stuttum tíma sem repúblikanar nýta sér yfirvofandi greiðslufall til að þrýsta á forsetann og demókrata, sem hafa meirihluta í öldungadeildinni, en sumarið 2011 náðist samkomulag og lög um hækkun skuldaþaks voru staðfest á síðustu stundu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×