Tónlist

Ferskt popp og reggí væntanlegt

Freyr Bjarnason skrifar
Reggísveitin Ojba Rasta, Tilbury, Kaleo, Mammút, Eyþór Ingi og Lay Low mæta öll með nýjar plötur á næstunni.
Reggísveitin Ojba Rasta, Tilbury, Kaleo, Mammút, Eyþór Ingi og Lay Low mæta öll með nýjar plötur á næstunni. fréttablaðið/stefán
Margar áhugaverðar plötur með nýju efni eru væntanlegar á næstu mánuðum frá helstu útgáfufyrirtækjum landsins.

Record Records verður áfram iðið við kolann og hefur tilkynnt um útgáfu sjö hljómplatna. Fjórða plata popparanna í Leaves, See You In The Afterglow, kemur út á föstudaginn. Hljómsveitin, sem var eitt sinn á mála hjá stórum erlendum útgáfufyrirtækjum, gaf síðast út We Are Shadows fyrir fjórum árum.

Ojba Rasta gefur út sína aðra plötu, Friður, 18. október. Frumburður reggísveitarinnar kom út í fyrra og fékk mjög góða dóma víðast hvar og verður forvitnilegt að heyra hvernig hún fylgir velgengninni eftir.

Önnur sveit sem átti vel heppnaða fyrstu plötu, Tilbury, gefur út Northern Comfort 25. október. Fyrsta platan Exorcise kom út í fyrra og náði lagið Tenderloin miklum vinsældum. Plata með nýju efni frá Lay Low er einnig væntanleg 30. október. Nýlega gaf hún út tónleikaplötuna Live At Home en fyrir tveimur árum kom út síðasta hljóðversplata hennar, Brostinn strengur.

Mammút gefur svo út sína fyrstu plötu í fimm ár, eða síðan Karkari kom út 2008. Nefnist hún Komdu til mín svarta systir og kemur út 25. október.

Hjá Geimsteini kemur út barnaplatan Alheimurinn með Dr. Gunna og félögum. Fyrsta lagið af henni, Glaðasti hundur í heimi, er búið að gera allt vitlaust að undanförnu. Nýjasta lagið í spilun er með Bjartmari Guðlaugssyni, Sólmundi Hólm, Mugison og Jakobi Frímanni ásamt Fýlustráknum.

Önnur plata strákanna í Ultra Mega Technobandinu Stefán er einnig á leiðinni, rétt eins og Íkorni, fyrsta sólóverkefni Stefáns Arnar Gunnlaugssonar, upptökustjóra og hljómborðsleikara.

Stærsta útgáfa landsins, Sena, gefur út fyrstu plötu Kaleo sem átti eitt vinsælasta lag sumarsins, Vor í Vaglaskógi, og Eurovision-stjarnan Eyþór Ingi gefur út sína fyrstu plötu ásamt hljómsveit sinni Atómskáldunum. Auk þess mætir Friðrik Ómar með nýja plötu.

Tónlist Hjaltalín við þöglu myndina Days of Gray er einnig komin út.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×