Gagnrýni

Varla fyrir pempíur

Jón Viðar Jónsson skrifar
Saumur: "Hér segir frá ungu pari sem getur hvorki verið sundur né saman.“
Saumur: "Hér segir frá ungu pari sem getur hvorki verið sundur né saman.“
Leiklist: Saumur eftir Anthony Neilson

Leikfélag Reykjavíkur á Litla sviðinu

Leikstjórn og þýðing: Ríkharður Hjartar Magnússon. Leikmynd: Móeiður Helgadóttir. Hljóðmynd: Páll Ivan frá Eiðum



Skoska leikskáldið Anthony Neilson hefur verið í nokkru afhaldi hjá sumu yngra leikhúsfólki hér að undanförnu og í leikskrá Leikfélags Reykjavíkur, sem frumsýndi nýverið verk hans Stitching, Saum, er fullyrt að hann sé „tvímælalaust eitt magnaðasta samtímaleikskáld Bretlands“. Ekki skal ég gera stóran ágreining við þá hjá L.R. um það, en þau verk Neilsons, sem ég hef séð, hafa ekki vakið mikla hrifningu hjá mér eða löngun til að kynnast honum frekar. Hann kom fram um 1990 og var þá einn af helstu fulltrúum „in yer-face“-skólans svonefnda; hóps ungra leikskálda sem hikaði ekki við að sýna gróft ofbeldi, geðbilað kynlíf og annað þess háttar á sviðinu, né að hella ruddalegu orðbragði yfir áhorfendur, vísast í þeim göfuga tilgangi að afhjúpa sjúkan tíðaranda. En stundum getur verið mjótt á munum hvort höfundar fara ofan í göturæsið til þess að hreinsa til í því eða velta sér upp úr saurnum, eins og frægt skáld sagði um annað frægt skáld fyrir meira en hundrað árum.



Neilson hefur verið afkastamikill, skrifað nánast eitt verk á ári og er í fullu fjöri. Saumur er um tólf ára gamalt og ber merki þess, ekki síst þar sem talað er um Netið sem nýlegt fyrirbæri; karlinn í leiknum hefur sem sé uppgötvað hvað það sé nú mikill munur að geta fiskað þar upp klám og önnur slík herlegheit sem áður þurfti að hafa svo mikið fyrir að komast í eða fela. Hér segir frá ungu pari sem getur hvorki verið sundur né saman; þetta er ósköp venjulegt fólk, hann á framabraut í einhvers konar skrifstofustarfi, hún að basla í háskólanámi. Í fyrsta atriðinu eru þau að ræða hvort þau eigi að eignast barnið sem hún er orðin ófrísk að, bæði jafn óákveðin, og batnar ekki þegar hann kveðst ekki viss um að vera pabbinn; þetta er sem sé frjálslynt nútímafólk og hafa bæði verið að dandalast með öðrum eftir að þau byrjuðu saman, og engin furða þó allt endi í rifrildi og látum. Leikurinn er í framhaldinu röð stuttra smámynda úr sambandinu, sem virðist að miklu leyti snúast um lausbeislaðar kynlífsfantasíur og endurteknar brotlendingar; annars er manni varla ljóst hvar veruleikinn endar og órarnir taka við; trúlega vita þau sjálf það ekki heldur. Þó að framsetning sé þannig ruglingsleg, er leikmáti og sviðsetning með raunsæisbrag, sögusviðið íbúð mannsins, en sú mynd, sem er dregin upp af þessum tveimur einstaklingum, umhverfi þeirra og aðstæðum, er engu að síður lausleg og án dýptar.



Það er ungt leikhúsfólk sem stendur að sýningunni: leikstjóri og þýðandi, Ríkharður Hjartar Magnússon, nýútskrifaður úr Listaháskólanum, karlleikarinn sömuleiðis, en leikkonan er enn við nám, og er nú af sem áður var, þegar leiknemum var stranglega bannað að koma fram utan skólans á meðan á námi stæði. Mun það ekki síst hafa verið til að koma í veg fyrir að fólk fengi stjörnu-komplexa, ef hætta væri á slíku, og má mikið vera ef þáverandi stjórnendur skólans vissu þar ekki hvað þeir sungu. Af kynningu Leikfélagsins má ráða að sýningin sé viðleitni til að kynna til leiks ungt fólk úr Listaháskólanum: það „slær okkur blíðlega utan undir, því fylgja nýjar hugmyndir og önnur viðhorf,“ segir á heimasíðu leikhússins og því bætt við að ef ekki væri þetta unga fólk, dæi listin bara út. Ekki skal ég heldur deila um það við Leikfélagsmenn, en hitt eru gömul sannindi og gegn, að margir eru kallaðir og fáir útvaldir, og þarflaust að gleyma þeim þegar nýtt fólk með listræna drauma og hæfileika er leitt fram. Sá sem hefur fylgst lengi með íslenskri leiklist hefur séð ýmsum hossað hátt, sem hurfu svo skjótt á braut, og hann hefur líka séð augljósar gáfur vannýttar og verða að engu.



Sýning L.R. á Saumi, sem er reyndar upphaflega útskriftarverkefni Ríkharðs, er snoturlega unnin. Leikstjórn hófsöm, virtist yfirleitt rétt hugsuð, umgerðin sáraeinföld, og frammistaða leikendanna tveggja, Völu Kristínar Eiríksdóttur og Hjartar Jóhanns Jónssonar, almennt í góðu lagi. Völu Kristínu tókst þó mun betur að gæða sína persónu trúverðugleik en Hirti, sem var helst til sléttur og felldur í sinni túlkun; það var frekar erfitt að trúa því að svo geðslegur piltur og blátt áfram hýsti svo brenglaðar hvatir sem raun bar vitni.



Eftir sýninguna á laugardagskvöldið hitti ég áhorfanda sem var nýbúinn að sjá Harmsögu í Þjóðleikhúsinu. Kvaðst sá vera orðinn þungt hugsi yfir því hvers lags hörmungar biðu ungs hjónafólks, ef báðir leikirnir segðu satt, og verður því naumast neitað að hann hafi haft nokkuð til síns máls.

Niðurstaða: Þó að ætlun höfundar sé eflaust að sýna hvernig klámvæðingin getur eitrað hugmyndir og samlíf ungs fólks, er veruleikamynd verksins of einföld og grunn til að snerta við áhorfandanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×