Tónlist

Hættir hjá Senu eftir 16 ára starf

Freyr Bjarnason skrifar
Eiður Arnarsson segir tímann hjá Senu hafa verið svakalega skemmtilegan.
Eiður Arnarsson segir tímann hjá Senu hafa verið svakalega skemmtilegan. fréttablaðið/anton
Eiði Arnarssyni hefur verið sagt upp sem útgáfustjóra stærstu plötuútgáfu landsins, Senu.

„Það eru mjög miklar breytingar á tónlistarmörkuðum sem valda þessu. Þetta er gert í eins góðu og hægt er að gera og ég útiloka alls ekki að við eigum eftir að vinna með Eiði í framtíðinni,“ segir Björn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Senu.

„Þetta er eitthvað sem menn í hans stöðu í löndunum í kringum okkur hafa verið að ganga í gegnum síðustu fimm til tíu árin. Sena er síður en svo hætt að gefa út músík og við munum kynna nýtt skipulag á næstunni.“

Eiður lætur af störfum um áramótin eftir sextán ára starf. Aðspurður segir hann tímann hjá Senu hafa verið svakalega skemmtilegan og starfið einstaklega líflegt. „Annars vegar eru endalaus forréttindi að vinna við tónlist og hins vegar að vinna við hjartans afkvæmi listamannanna, sem plöturnar gjarnan eru. Að vera treyst fyrir þessu starfi er búið að vera frábært.“

Eiður segist ætla að vinna „gjörsamlega á fullu“ til áramóta. „Auðvitað er fullt af hlutum sem maður á eftir að sakna. En að vera í sextán ár í þessu starfi er mjög langur tími. Ef markaðurinn væri stærri væri ég sennilega löngu hættur, ef það væri eðlileg „rótering“ í þessum bransa eins og gengur og gerist erlendis.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×