Lífið

Gerir tilraun að sumarfríi á Spáni

Fréttablaðið/Pjetur
„Við byrjum á tökum um mánaðamótin febrúar mars og ef allt gengur upp ættum við að ná að frumsýna myndina haustið 2014,“ segir leiklistarmógúllinn Bjarni Haukur Þórsson. Hann undirbýr nú tökur á kvikmyndinni Afinn sem byggð er á samnefndum einleik sem settur var upp í Borgarleikhúsinu. Bjarni leikstýrir myndinni og skrifar handritið ásamt leikaranum Ólafi Agli Egilssyni.

Grínistinn Sigurður Sigurjónsson fór með hlutverk afans í einleikum og verður sama uppi á teningnum í myndinni.

„Sagan er sú sama og í einleiknum að mörgu leyti. Við þurftum aðeins að breyta og bæta og færa handritið í kvikmyndaform en Siggi Sigurjóns verður afinn á ný. Hann leikur þó ekki öll hlutverkin í myndinni en meðal annarra leikara eru Þorsteinn Bachmann og Sigrún Edda Björnsdóttir,“ bætir Bjarni við.

Myndin verður tekin upp í Reykjavík, í Stykkishólmi og á Spáni en á síðastnefnda staðnum verður afinn í sumarfríi.

„Hann gerir tilraun að sumarfríi með hörmulegum afleiðingum. Svo þarf hann að glíma við hjónabandið, er óánægður með ráðahag yngri dótturinnar sem er að fara að gifta sig, verður veikur, það gengur ekkert hjá honum í golfi og hann missir góðan vin. Það fer allt á hvolf hjá afanum og get ég lofað mörgum ógleymanlegum senum sem margir kannast við eða hafa upplifað sjálfir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×