Skoðun

Makríll: 45 milljarða kr. vinningur

Kristinn H.Gunnarsson skrifar
Þegar verst stóð á eftir bankahrunið fengu Íslendingar einstæðan happafeng. Ný verðmæt fiskitegund, makríllinn, tók að veiðast í miklu magni. Frá 2010 hafa veiðst 550-600 þúsund tonn og útflutningsverðmætið er um 70 milljarðar króna. Þetta bætist við góða afkomu sjávarútvegsins síðan 2008 af hefðbundnum veiðum vegna lágs gengis krónunnar.

Ekki hefur þurft að leggja út í neina fjárfestingu til þess að ná í þessa 70 milljarða króna. Skip, veiðarfæri og annar búnaður er þegar til staðar og greiddur af öðrum veiðum og vinnslu. Einu útgjöldin vegna makrílsins eru breytilegur kostnaður, einkum laun og olía. Fái útgerð tekjur sem greiða breytilega kostnaðinn, er hver króna umfram það ávinningur og það borgar sig að stunda veiðarnar.

Samkvæmt ákvæðum kjarasamninga og opinberum gögnum Hagstofunnar má ætla að breytilegi kostnaðurinn sé um 37% af útflutningsverðmæti makríls. Hagnaðurinn frá 2010 hefur því orðið samtals um 45 milljarðar króna. Greiðslur fyrir veiðiréttinn urðu hins vegar aðeins um 2,4 milljarðar króna. Skipting ágóðans milli ríkis og útgerðarinnar var 95%:5%, útgerðinni í vil.

Makríllinn er ekki í kvóta, enginn kostnaður hefur fallið til. Makríllinn er alger viðbót utan við kerfið. Verðið sem útgerðin hefði séð sér hag í að greiða fyrir veiðiréttinn á markaði hefði verið allt að öllum tekjum umfram breytilegan kostnað. Veiðiréttinn er hægt að verðleggja á markaði eins og útgerðarmenn gera fyrir kvótabundnar tegundir.

Gefum okkur að niðurstaðan hefði orðið að greiða 80% af hagnaðinum fyrir veiðiréttinn. Þegar makríllinn verður kominn inn í kvótakerfið mun þetta verða a.m.k. verðið fyrir veiðiréttinn. Þá hefði ríkið fengið 34 milljarða króna í stað 2,4 milljarða kr. og hagnaður af makrílveiðunum og -vinnslunni samt orðið um 8.5 milljarðar króna.

Síðasta ríkisstjórn hefði hæglega getað sótt þessar tekjur, en ákvað að skilja þær eftir í vösum eigenda sjávarútvegsfyrirtækjanna. Ávinningurinn af makrílnum hefði getað hlíft heilbrigðiskerfinu og almannatryggingum við niðurskurði síðustu ár. Tækifærið var ekki nýtt. Það er sár niðurstaða fyrir almenning.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×