Skoðun

Að mismuna börnum

Einar Steingrímsson skrifar
Árið 1896 féll dómur í Hæstarétti Bandaríkjanna í málinu Plessy gegn Ferguson, sem er eitt af þekktustu málum bandarískrar lögfræðisögu. Ekki síður þekkt er sú hugmynd sem birtist í dómnum og hlaut nafngiftina „separate but equal“, en það gæti á íslensku útlagst sem „aðskilin en jöfn“. Hér er vísað í þá niðurstöðu réttarins að í lagi sé að skilja að fólk eftir kynþætti, að því tilskildu að aðbúnaður beggja sé jafn.

Þetta voru lög í landinu í rúma hálfa öld, þar til þeim var hnekkt í málinu Brown gegn Board of Education árið 1954, sem er ekki síður þekkt en Plessy, enda er síðari úrskurðurinn grundvallaratriði í bandarískum rétti fram á þennan dag. Í honum er því lýst yfir að aðskilnaður á grundvelli kynþáttar feli sjálfkrafa í sér ólögmæta mismunun.

Innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, hélt nýlega ræðu á kirkjuþingi, þar sem hún talaði um andstöðuna við trúboð ríkiskirkjunnar í grunnskólum, og hélt því m.a. fram að andstæðingarnir vildu „forða börnunum okkar frá boðskap um…kærleika“. Sóðalegar dylgjur af þessu tagi, sem eru í raun hrein lygi, hefðu í flestum nágrannalöndum okkar trúlega leitt til þess að ráðherrann hefði þurft að biðjast afsökunar á orðum sínum, eða segja af sér. Svo er ekki á Íslandi, enda ríkja þar óþroskaðar hugmyndir um siðferði og ábyrgð stjórnmálafólks.

Fáum hefði brugðið ef ritstjóri Fréttablaðsins, Ólafur Stephensen, hefði bent kurteislega á að rakalausar svívirðingar af þessu tagi væru hvorki sæmandi ráðherra né líklegar til að vinna fylgi þeirri ríkiskirkju sem hann styður greinilega, miðað við fyrri skrif hans. Hann kaus í staðinn að verja, í nýlegum leiðara, framgöngu Hönnu Birnu, og reyndi að breiða yfir ofstækið sem felst í staðhæfingum hennar. Ólafur virðist vera á þeirri skoðun að nóg sé „að tryggja að börn foreldra sem aðhyllast önnur trúarbrögð eða engin þyrftu ekki að taka þátt í hefðum eða athöfnum sem væru þeim á móti skapi“ og á þar við athafnir í skólum sem tengjast boðskap ríkiskirkjunnar.

Það eru næstum sextíu ár síðan hæstiréttur Bandaríkjanna kvað upp úr um að aðskilnaður á grundvelli kynþátta bryti gegn þeim mannréttindum sem bandaríska stjórnarskráin tryggði borgurum landsins, af því að slíkur aðskilnaður fæli sjálfkrafa í sér misrétti. Innanríkisráðherra, og ritstjóri Fréttablaðsins, telja hins vegar, enn þann dag í dag, í lagi að börn séu aðskilin í skólastarfi, á grundvelli lífsskoðana foreldra þeirra.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×