Tónlist

Botnleðja í keppni við Geirmund

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Helstu slagarar Botnleðju munu heyrast í skemmtaraútgáfu á Jólaplöggi Record Records um helgina.
Helstu slagarar Botnleðju munu heyrast í skemmtaraútgáfu á Jólaplöggi Record Records um helgina. fréttablaðið/anton brink
„Skemmtarinn hefur átt undir höggi að sækja að undanförnu og Geirmundur hefur verið einráður á skemmtaramarkaðnum,“ segir Heiðar Örn Kristjánsson, söngvari og gítarleikari Botnleðju, sem kemur fram á Jólaplöggi Record Records um næstu helgi.

Heiðar er þó eini meðlimur sveitarinnar sem kemur þar fram. „Ég verð þarna með gítarinn en Þröstur skrítni á Skerseyrarveginum verður mér til halds og trausts á skemmtaranum,“ útskýrir Heiðar.

Heiðar og Þröstur ætla leika lög Botnleðju í skemmtaraútgáfu en einnig má segja að útgáfan verði léttsvinguð. „Halli trommari og Raggi bassaleikari komust ekki á Jólaplöggið og var skemmtarinn því besta lausnin en þetta verður mjög skemmtilegt.“

Þetta verður líklega í eina skiptið sem aðdáendur Botnleðju geta léð skemmtaraútgáfunni eyra. Jólaplögg Record Records fer fram næstkomandi laugardagskvöld á Harlem og á Gamla Gauknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×