Tónlist

Söng með þekktustu sópransöngkonu í heimi

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Andri Björn Róbertsson kemur fram með Kór Langholtskirkju í kvöld og um helgina.
Andri Björn Róbertsson kemur fram með Kór Langholtskirkju í kvöld og um helgina. fréttablaðið/daníel
„Það var magnað að syngja með Dame Kiri Te Kanawa og mikill heiður, þetta er eins og að syngja með Carreras,“ segir söngvarinn Andri Björn Róbertsson. Hann kom fram á tónleikum með Dame Kiri Te Kanawa, sem er líklega ein þekktasta sópransöngkona allra tíma, í Cadogan Hall í London um síðustu helgi. Þau hafa þekkst í fimm ár og hefur hann notið leiðsagnar hennar.

Andri Björn var að skrifa undir samning um að syngja í tveimur nýjum óperum sem settar verða upp í samstarfi Aldeburgh Music, Royal Opera House Covent Garden og Opera North. „Hlutverkin sem ég syng eru samin með mína rödd í huga og þetta verður gríðarlega spennandi verkefni þar sem sýningar verða í Linbury Studio Theatre í Covent Garden, Aldeburgh og í Leeds.“

Andri Björn býr í London en stundar nám við The National Opera Studio. Stofnunin er rekin af sex stærstu óperuhúsunum í Bretlandi, sem eru Royal Opera House, Opera North, Scottish Opera, Welsh National Opera, Glyndebourne og English National Opera. „Það er gríðarlega mikil samkeppni um að komast inn og í ár eru 13 söngvarar og fjórir píanistar sem stunda þar nám. Námið er mjög krefjandi og til mikils er ætlast af þeim sem þar eru,“ útskýrir Andri Björn.

Hann syngur á Jólasöngvum Kórs Langholtskirkju í kvöld og annað kvöld og á sunnudag, verður þar einsöngvari ásamt Þóru Einarsdóttur og Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur. Jón Stefánsson stjórnar. Miðasala er á midi.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×