Tónlist

Band of Horses og Johnston til Íslands

Freyr Bjarnason skrifar
Ben Bridwell og félagar í Band of Horses spila í Eldborg í Hörpu í sumar.  Nordicphotos/Getty
Ben Bridwell og félagar í Band of Horses spila í Eldborg í Hörpu í sumar. Nordicphotos/Getty
"Þetta verða frábærir tónleikar, ég hef enga trú á öðru," segir tónleikahaldarinn Guðbjartur Finnbjörnsson. Bandaríska hljómsveitin Band of Horses spilar í Eldborgarsalnum í Hörpu 11. júní.

Þetta verða fyrstu tónleikar sveitarinnar á Íslandi en hún nýtur mikilla vinsælda víða um heim. Band of Horses kemur frá Seattle og spilar þjóðlagaskotið indírokk. Hún hefur gefið út fjórar plötur og kom sú síðasta út í fyrra, Mirage Rock.

Vinsælasta plata sveitarinnar er Infinite Arms frá 2010. Hún var tilnefnd til Grammy-verðlaunanna, auk þess sem hún komst á lista margra gagnrýnenda yfir bestu plötur ársins. Þekktustu lög hljómsveitarinnar eru No One"s Gonna Love You, Is There A Ghost og The Funeral.

Hljómsveitin var stofnuð 2004 og hefur verið dugleg við tónleikahald síðan þá. Tónleikarnir á Íslandi verða þeir fyrstu í Evróputúr þar sem þeir félagar spila á hinum ýmsu tónlistarhátíðum.

"Í upphafi vildu þeir fá mun hærri upphæð en ég gat boðið þeim. Svo fékk ég tölvupóst um að þeir væru til í að koma til Íslands ef þeir fengju að koma deginum áður og vera í þrjár nætur í staðinn fyrir tvær, þannig að þeir fá einn frídag á Íslandi," segir Guðbjartur.

Miðasala á tónleikana hefst 7. febrúar á Midi.is, Harpa.is og í síma 528-5050.

Heiðrar minningu Bjössa Biogen og Sigga Ármanns
Daniel Johnston spilar í Fríkirkjunni.
Daniel Johnston frá Texas í Bandaríkjunum er einnig á leiðinni til Íslands í sumar. Hann spilar í Fríkirkjunni 3. júní. Hann spilar huggulega indítónlist með ljúfsárum textum og á marga aðdáendur hér á landi. Johnston hefur glímt við geðræn vandamál og er hálfgerður utangarðsmaður í tónlistarbransanum.

Heimildarmyndin The Devil and Daniel Johnston, sem var gerð um hann árið 2005, vakti mikla athygli og vann til verðlauna á kvikmyndahátíðum. Í Fríkirkjunni stígur hann fyrst einn á svið með gítar eða píanó og eftir það spilar hann með hljómsveit. Svavar Knútur hitar upp. Tónleikahaldarinn Ágúst Már Garðarsson hefur unnið að því í tvö ár að fá Johnston til Íslands, eða síðan tveir vinir hans, tónlistarmennirnir Bjössi Biogen og Siggi Ármann, sem voru með geðsjúkdóma, létust með stuttu millibili.

"Í jarðarför Bjössa í Fríkirkjunni ákvað ég að gera allt sem ég gæti til að fá þennan listamann til landsins til að heiðra minningu þeirra," segir Ágúst Már. "Mig langaði að flytja þennan mikla meistara inn og auka þar með enn á umtal um geðsjúkdóma og fræðslu til að útrýma fordómum og hræðslu."

Ágúst Már kynntist tónlist Johnstons fyrir fimm árum, sá heimildarmyndina, og eftir það varð ekki aftur snúið. "Þessi mynd er einstök og ég heillaðist af þessari sögu um þennan utangarðsmann. Hann er ekki venjulegur maður og er þess vegna goðsagnakenndari fyrir vikið." Cobain vakti áhuga á JohnstonÁhugi á Daniel Johnston jókst mikið í byrjun tíunda áratugarins þegar Kurt Cobain úr Nirvana klæddist ítrekað bol með mynd af fyrstu plötu Johnstons, "Hi. How Are You?“. Það var tónlistarblaðamaðurinn Everett True sem gaf honum bolinn. Johnston dvaldi á geðsjúkrahúsi á þessum tíma en þrátt fyrir það fór hvert plötufyrirtækið á fætur öðru að bjóða honum samning. Hann neitaði margra platna samningi við Elektra Records vegna þess að Metallica var á mála hjá fyrirtækinu og taldi Johnston að rokksveitin væri haldin illum anda og myndi meiða hann.
Kurt Cobain í bolnum góða.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.