Handbolti

Sterkustu liðin í hverjum flokki

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron segir að allir leikir í dauðariðli EM verði gríðarlega erfiðir.
fréttablaðið/vilhelm
Aron segir að allir leikir í dauðariðli EM verði gríðarlega erfiðir. fréttablaðið/vilhelm
„Það er óhætt að segja að þetta sé hörkuriðill. Þarna eru sterkustu þjóðirnar úr hverjum styrkleikaflokki. Það má því segja að þetta sé dauðariðillinn,“ segir Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari eftir dráttinn fyrir EM í gær.

„Auðvitað er þetta þannig í þessu móti að það eru öll lið erfið en það var samt hægt að fá auðveldari andstæðinga. Þarna voru lið eins og Austurríki og Hvíta-Rússland til að mynda sem við hefðum getað mætt. Það þýðir ekki að fást um það.“

Ísland var næstum því lent í A-riðli með Dönum, sem munu spila fyrir framan 14 þúsund manns í Herning. Ísland gat aðeins lent í A- eða B-riðli. Var dregið fyrst upp úr pottinum og endaði í Álaborg.

„Það hefði verið mjög gaman og heillandi að spila í Herning. Þar verður rosaleg stemning. Við eigum líka alltaf fín tækifæri gegn Dönum. Þetta verður samt gríðarlega erfitt verkefni og við förum til Herning ef okkur tekst að komast áfram í mótinu sem er að sjálfsögðu okkar markmið.“

Aron segist hafa mestar áhyggjur af því í dag að allir nái fullri heilsu fyrir mótið.

„Ef við náum öllum heilum þá getum við gert góða hluti. Það munar um hvern mann.“

Landsliðsþjálfarinn var lengi þjálfari í Danmörku og líst ágætlega á að spila í Álaborg.

„Það verður fullt af Norðmönnum þarna og vonandi munu Íslendingar fjölmenna líka. Þarna verða bara hörkuleikir og okkur mun ekki veita af stuðningnum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×