Sport

Aníta er yngst og fljótust

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Aníta Hinriksdóttir er ekki aðeins yngsti keppandinn af þeim sem skráðir eru til leiks í 800 m hlaupi á EM U19 á Rieti á Ítalíu í dag heldur einnig sá sem á besta tímann.

Aníta bætti Íslandsmet sitt í greininni í lok júní er hún hljóp á 2:00,49 mínútum á sterku ungmennamóti í Mannheim í Þýskalandi. Hún var svo rúmri hálfri sekúndu frá Íslandsmeti sínu er hún sigraði á HM U17 um síðustu helgi með yfirburðum.

Næstbesta skráða tímann í greininni í dag á hin úkraínska Olena Sidorska eða 2:01,00 mínútur. Sidorska er nítján ára og því tveimur árum eldri en Aníta.

Þessar tvær virðast vera í nokkrum sérflokki því enginn annar keppandi á skráðan tíma undir 2:03,00 mínútum.

Til stóð að hin breska Jessica Judd, sem á best 1:59,85 mínútur, myndi keppa á mótinu en hún varð að hætta við þátttöku vegna meiðsla.

Keppt verður í þremur riðlum í undanúrslitum sem hefjast klukkan 13:50 í dag. Tveir efstu í hverjum riðli komast áfram og svo þeir tveir keppendur sem ná bestum tíma þar á eftir. Úrslitahlaupið er svo á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×