Innlent

Blæs risasköflum burt eftir minni af Mjóafjarðarheiði

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Camilla Ýrr og Arnar Freyr heimsóttu pabba sinn í vinnuna uppi á Mjóafjarðarheiði í gær. Tíkin Myrra fylgdi með.
Camilla Ýrr og Arnar Freyr heimsóttu pabba sinn í vinnuna uppi á Mjóafjarðarheiði í gær. Tíkin Myrra fylgdi með. Mynd/Kristín Hávarðsdóttir

Ásgeir Jónsson hefur eftir besta minni grafið frá því á þriðjudag í gegnum hátt í fimm metra skafla á veginum í Mjóafjörð. Í gær náði Ásgeir efst á heiðina og reiknar með þriggja daga snjóblæstri enn áður en fært er orðið.

„Þetta er óvenju mikið,“ segir Ásgeir Jónsson sem frá því á þriðjudag hefur verið að ryðja snjóalög vetrarins á leiðinni frá Fagradal ofan í Mjóafjörð. Vegurinn í Mjóafjörð hefur verið ófær frá því nokkru fyrir jól. Ásgeir reiknar með að blása þurfi snjó af um átján kílómetra kafla.

„Það eru fimm ár síðan ég blés þetta síðast. Það var í byrjun maí. Þá vorum við þrjá daga að fara alla heiðina,“ segir Ásgeir sem í gær náði hápunkti Mjóafjarðarheiðar og reiknar með að minnsta kosti þriggja daga snjóblæstri í viðbót.

„Ég á eftir að fara niður Mjóafjarðarmegin og þar eru nú yfirleitt stærstu skaflarnir. Fúsi á Brekku kom hér á vélsleðanum sínum í dag og sagðist búast við að þeir yrðu upp undir sjö metrar. Ég held nú að þeir verði ekki svo háir, ég býst við svona fimm til sex metrum hæst,“ segir Ásgeir sem reynir að hitta á veginn eftir minni því engir gps-punktar eru til um leiðina.

„Ég er hálfur Mjófirðingur því móðir mín er fædd þar og er búinn að fara þetta nokkuð oft. Þannig að maður er nokkurn veginn með þetta í hausnum.“

Ein og sjá má gnæfa skaflarnir yfir allt.Mynd/Kristín Hávarðsdóttir
Stund milli stríða.Mynd/Kristín Hávarðsdóttir
Ásgeir reiknar með þriggja daga snjóblæstri enn áður en fært er orðið.Mynd/Kristín Hávarðsdóttir
Ásgeir blæs eftir minni.Mynd/Kristín Hávarðsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×