Innlent

Risahöfn og olíuiðnaður inn á skipulag Langanesbyggðar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Skipulagsstofnun hefur fallist á aðalskipulag Langanesbyggðar sem gerir ráð fyrir risahöfn í Finnafirði og lóðum undir olíu- og gasiðnað og bíður það nú staðfestingar umhverfisráðherra.

Sveitarstjórnarmenn á Norðausturlandi hafa lengi horft til þeirra tækifæra sem siglingar yfir Norðurheimskautið og olíuleit gætu skapað og komu stórskipahöfn í Gunnólfsvík við Langanes inn á aðalskipulag fyrir átta árum. Þáverandi iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, veitti þessum áformum stuðning sinn þegar hann hóf fyrsta olíuleitarútboð Íslendinga á Vopnafirði og Þórshöfn fyrir fjórum árum. Sem utanríkisráðherra hefur hann haldið áfram að beita sér í þessu skyni, síðast fyrir páska, þegar hann bauð olíumálaráðherra Noregs samstarf um þjónustumiðstöð á Íslandi.

Sveitarfélögin Vopnafjörður og Langanesbyggð hafa með útgáfu bæklings auglýst svæðið undir olíuhreinsistöð og umskipunarhöfn fyrir Norðurslóðasiglingar, og boðið upp á alþjóðaflugvöll og þyrlumiðstöð á Þórshöfn. Þegar ráðamenn Langanesbyggðar ætluðu að sníða skipulagið betur að þessum áformum rákust þeir hins vegar á hindranir, sem voru mishrifnir landeigendur, og gerði Skipulagsstofnun sveitarfélagið ítrekað afturreka með skipulagsstillögur.

Nú er komin niðurstaða, sem felur það í sér að jarðir í byggð verða ekki teknar undir iðnaðarlóðir, og hætt er við áform um þyrlumiðstöð og stækkun Þórshafnarflugvallar vegna andstöðu landeiganda. Skipulagsstofnun hefur samþykkt aðalskipulagið og frá því um miðjan febrúar hefur það beðið staðfestingar umhverfisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×