Tónlist

Nemur við virtan tónlistarháskóla

Sara McMahon skrifar
Úlfur Hansson flytur til Bandaríkjanna ásamt fjölskyldu sinni í haust. Þar mun hann leggja stund á meistaranám í raftónlist við Mills College.
Úlfur Hansson flytur til Bandaríkjanna ásamt fjölskyldu sinni í haust. Þar mun hann leggja stund á meistaranám í raftónlist við Mills College. mynd/Iona Sjöfn Huntingdon-Williams
Tónlistarmaðurinn Úlfur Hansson mun hefja meistaranám í raftónlist við Mills College í Kaliforníu í haust.

Tónlistardeild skólans þykir sérlega framsækin og hlýtur Úlfur styrk fyrir skólagjöldunum gegn því að kenna nemendum á grunnstigi að búa til raftónlistarhljóðfæri, en 26 strengja rafstrokin harpa Úlfs hlaut Nýsköpunarverðlaunin í ár.

Úlfur og sambýliskona hans, Rebekka Rafnsdóttir, flytjast búferlum í ágúst ásamt frumburði sínum; lítilli dóttur sem fæddist þann 27. mars. „Við erum orðin mjög spennt, þetta verður algjört ævintýri. San Francisco er ein af uppáhaldsborgunum mínum í Bandaríkjunum; andrúmsloftið er svo afslappað þar og fólkið opið og skemmtilegt,“ segir hann.

Mills College er gamall og virtur skóli og á meðal þeirra tónlistarmanna sem hafa lokið þaðan námi eru tónskáldin Leon Kirchner og Darius Milhaud, listakonan Laurie Anderson, Phil Lesh úr hljómsveitinni Grateful Dead, tilraunatónskáldið Steve Reich og tónlistarkonan Joanna Newsom. „Það hafa margir flottir listamenn verið viðloðandi þessa stofnun í gegnum tíðina. Hljómsveitin Deerhoof spratt meðal annars upp úr umhverfinu í kringum Mills og svo er Fred Frith yfir tónlistardeildinni og verður prófessorinn minn.“

Úlfur er menntaður í klassískri tónlist við Listaháskóla Íslands. Í mars kom út fyrsta sólóplata hans á heimsvísu og ber hún nafnið White Mountain. Platan hefur hlotið mikla athygli og hafa blaðamenn tímaritsins Spin Magazine og tónlistarvefsíðunnar Pitchfork.com farið fögrum orðum um hana.

Hann segir raftónlistaráhugann hafa fylgt sér frá barnsaldri. „Ég hef haft áhuga á raftónlist frá því að ég var lítill og bakgrunnur minn liggur í klassískri tónlist með áherslu á raftónlist.“ Spurður út í framtíðaráformin segir Úlfur þau óráðin en telur líklegt að fjölskyldan dvelji áfram í Bandaríkjunum bjóðist það. „Annars gætum við alveg eins endað í annarri heimsálfu. Hver veit.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×