Skoðun

Jarðskjálftinn á Haítí

Í dag eru liðin þrjú ár frá jarðskjálftanum mikla á Haítí. Ég vil því nota tækifærið til að segja stuttlega frá því hjálparstarfi sem Rauði krossinn á Íslandi stóð að og hvaða árangri það skilaði.

Í jarðskjálftanum er talið að 220 þúsund manns hafi týnt lífi og um 300 þúsund manns slösuðust. Eyðileggingin var gífurleg, einkum í höfuðborginni, Port-au-Prince.

Rauði krossinn á Íslandi tók þátt í hjálparstarfinu á Haítí frá byrjun. Má þar nefna að sendar voru skyndihjálparvörur með flugvél, sem utanríkisráðuneytið leigði til að sækja rústabjörgunarsveit, og var einnig sendur héðan búnaður fyrir tjaldsjúkrahús Rauða krossins. Á fyrsta árinu eftir skjálftann fóru alls 27 íslenskir hjálparstarfsmenn til starfa á Haítí. Starfsfólk héðan vann við hjúkrun og lækningar, að vatnshreinsun og dreifingu hjálpargagna og við skipulagningu á hjálparstarfinu og að uppbyggingu í kjölfarið. Rauði krossinn hefur aldrei áður sent jafn marga sendifulltrúa á einn stað á svo stuttum tíma.

Rauði krossinn á Íslandi ákvað í framhaldinu að beina kröftum sínum að sálrænum stuðningi fyrir fórnarlömb hamfaranna – enda mikil þörf fyrir slíkan stuðning eins og gefur að skilja. Á tveimur árum hafa um 60 þúsund manns fengið aðstoð en það jafngildir um helmingi íbúa í Reykjavík. Lögð hefur verið sérstök áhersla á að styðja börn og þau eru um 75% þeirra sem fengu sálrænan stuðning.

Þess má einnig geta að innlendir sjálfboðaliðar á vegum Rauða krossins á Haítí hafa fengið umfangsmikla þjálfun til að sinna sálrænum stuðningi svo að nú eru yfir 200 sjálfboðaliðar reiðubúnir að veita slíka þjónustu, t.d. í kjölfar fellibylja sem reglulega ríða yfir eyjuna.

Þannig hefur tekist að efla eigin viðbúnað heimamanna sem er öflugri núna en fyrir jarðskjálftann. Óhætt er að segja að almenningur á Íslandi hafi brugðist vel við þegar Rauði krossinn leitaði eftir fjárstuðningi til hjálparstarfsins. Samtals söfnuðust yfir 45 milljónir kr. frá almenningi og ríki og sveitarfélög lögðu til tæpar 30 milljónir kr.

Rauði krossinn á Íslandi vill þakka fyrir þennan stuðning.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×