Lífið

Hamborgarafabrikkan opnar á Hótel Kea

Ellý Ármanns skrifar
Frá vinstri: Erla Björnsdóttir, Hallgrímur Friðgeirsson, Friðrikka Hjördís Geirsdóttir, Sigmar Vilhjálmsson, Páll L. Sigurjónsson, Jóhannes Ásbjörnsson, Hrafnhildur Karlsdóttir, Skúli Gunnar Sigfússon, Snorri Marteinsson og Helga Lund.
Frá vinstri: Erla Björnsdóttir, Hallgrímur Friðgeirsson, Friðrikka Hjördís Geirsdóttir, Sigmar Vilhjálmsson, Páll L. Sigurjónsson, Jóhannes Ásbjörnsson, Hrafnhildur Karlsdóttir, Skúli Gunnar Sigfússon, Snorri Marteinsson og Helga Lund.
Á vormánuðum verður opnaður nýr og glæsilegur veitingastaður og bar á Hótel Kea Akureyri.

Hönnunarferlið er langt komið og í því er leitast við að halda í fágun fortíðarinnar en koma jafnframt nýjum straumum og stefnum að. Hótel Kea er eitt af þekktustu kennileitum Akureyrar og hefur haldið virðuleika sinum í gegnum tíðina. Horft er sérstaklega til þess í hönnuninni að endurvekja hótelið sem miðdepil mannlífs bæjarins.

,,Það eru ákaflega spennandi tímar framundan hjá Hótel Kea. Við erum að ráðast í miklar breytingar á móttökuhæð hótelsins auk þess sem að Hamborgarafabrikkan opnar á jarðhæðinni" segir Páll L. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda Keahótela.

,,Hugmyndafræðin á bakvið hönnun Hótel Kea er tímalaus og endurspeglar hlýlegan og klassískan stíl þess. Hönnunin þarf að standast væntingar til framtíðar og vera jafn fáguð að 20 árum liðnum. Þá þarf hún að höfða til íslendinga jafnt sem erlendra ferðamanna. Helstu breytingarnar felast í því að settur verður nýr bar og" lounge" þar sem nú er gestamóttaka hótelsins. Jafnframt verður útisvæði tengt veitingstaðnum þar sem hægt verður að njóta veitinga á einu sólríkasta horni miðbæjarins. Einnig verður sérsniðið nýtt konsept fyrir veitingastað og bar. Það er heiður að fá þetta verkefni til okkar þar sem að Hótel Kea er eitt af kennileitum Akureyrar." segja hönnuðir verksins en þau eru; Helga Lund arkitekt, Hallgrímur Friðgeirsson, innanhússarkitekt og Friðrika Hjördís Geirsdóttir (Rikka).



Hamborgarafabrikkan opnar á jarðhæð Hótel Kea

Vorið 2013 verður ný Hamborgarafabrikka opnuð á jarðhæð Hótel Kea, þar sem áður var Terían (Súlnaberg). Staðurinn mun taka um 120 manns í sæti og er hannaður eins og staðurinn í Reykjavík.

"Við erum virkilega spenntir fyrir opnun Fabrikkunnar á Akureyri. Nýja Fabrikkan verður ögn minni en sú í Reykjavík en að öðru leyti eins. Sami matseðill, sömu verð og sömu áherslur. Það er okkur heiður að fá að bætast í hóp flottra veitingastaða á Akureyri og vonandi verður okkur vel tekið", segir Sigmar Vilhjálmsson, einn eigenda Hamborgarafabrikkunnar.

"Við höfum alltaf borið hlýjar tilfinningar til Akureyrar og hluti af eftirvæntingunni við nýja staðinn er sú staðreynd að við komum til með að eyða miklum tíma fyrir norðan", segir Jóhannes Ásbjörnsson, einn eigenda Hamborgarafabrikkunnar.

Hönnuðir verksins eru Helga Lund arkitekt, Hallgrímur Friðgeirsson, innanhússarkitekt og Friðrika Hjördís Geirsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×