Íslenski boltinn

Viðar Örn samdi við Fylkismenn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viðar Örn Kjartansson fagnar hér marki með Selfossi síðasta sumar.
Viðar Örn Kjartansson fagnar hér marki með Selfossi síðasta sumar. Mynd/Vilhelm
Viðar Örn Kjartansson skrifaði í kvöld undir þriggja ára samning við Fylki og mun því spila áfram í Pepsi-deildinni næsta sumar. Viðar hefur verið að leita sér að liði í efstu deild eftir að Selfoss féll úr deildinni síðasta haust. Þetta kemur fram á vefsíðunni fótbolti.net.

Viðar Örn er 22 ára framherji sem er markahæsti leikmaður Selfoss í efstu deild með 10 mörk. Viðar er Selfyssingur að upplagi en lék í eitt tímabil með ÍBV og þetta verður því ekki fyrsta tímabil hans í efstu deild með öðru liði en Selfoss.

Viðar skoraði 7 mörk í 21 leik á síðasta tímabili en flest mörkin komu í seinni hluta mótsins.

Viðar er fjórði leikmaðurinn sem Fylkir fær til sín fyrir tímabilið en þeir Tryggvi Guðmundsson (frá ÍBV), Sverrir Garðarsson (frá Haukum) og Kristján Páll Jónsson (frá Leikni) eru einnig búnir að semja við Árbæjarliðið.

Fylkismenn hafa á móti misst þá Björgólf Takefusa í Val, David Elebert, Emil Ásmundsson í Brighton & Hove Albion, Ingimund Níels Óskarsson í FH og Jóhann Þórhallsson í Þór en þetta kemur einnig fram á fótbolti.net.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×