Birkir Már Sævarsson og félagar í Brann töpuðu 0-1 á heimavelli á móti Haugesund í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Brann-liðið byrjaði tímabilið vel en hefur síðan hrunið niður töfluna enda aðeins búið að vinna tvo af síðustu tólf deildarleikjum sínum.
Christian Gytkjær skoraði eina mark leiksins á 76. mínútu en það skilaði Haugesund-liðinu upp í fjórða sætið. Birkir Már Sævarsson var sem fyrr í hægri bakverðinum og spilaði allan leikinn.
Þetta var ennfremur fjórði leikur Brann í röð án sigurs en liðið situr nú í sjöunda sæti deildarinnar og gæti misst tvö lið upp fyrir sig þegar 26. umferðin klárast um helgina.
Næst á dagskrá hjá Birki er að hitta félaga sína í íslenska landsliðinu en framundan eru mikilvægir leikir í undankeppni HM þar á meðal einn á móti Noregi.

