Það tók strákana lungann úr fyrri hálfleik að komast almennilega í gang. Þeir komust fljótt í 4-1 og þegar Guðjón Valur skoraði, 5-2, og öskraði af gleði eins og um síðasta markið á ferlinum væri að ræða hélt maður að nú fengju gestirnir að finna fyrir því. Þeir fengu það á endanum – en ekki alveg strax.
Ísraelsmenn buðu ekki upp á flóknasta sóknarleik í heimi; svolítið bara handbolti 101 með klippingum fram og til baka í leit að skotfæri. Það gekk erfiðlega fyrir þá að finna sér skotfæri, en einhvern veginn tókst þeim að troða boltanum í netið trekk í trekk. Eftir 22 mínútna leik var aðeins tveggja marka munur á liðunum, 11-9, og stemningin í Höllinni ekki mikil.

En þetta lagaðist allt undir lok fyrri hálfleiks og hófst þegar Aron Rafn Eðvarðsson kom í markið. Haukamaðurinn hávaxni varði öll fjögur skotin sem hann fékk á sig síðustu átta mínúturnar í fyrri hálfleik og þannig náðu okkar menn að slíta sig frá gestunum.
Staðan 14-9 í hálfleik og aðalmarkvörður Ísraels, Eldar Shikloshi, farinn út af með rautt spjald fyrir að stöðva Guðjón Val með heimskulegu úthlaupi. Það var ástæða fyrir því að Shikloshi byrjaði í markinu. Staðgengill hans hafði ekkert inn á völlinn að gera í svona leik.

Fólkið á pöllunum byrjaði að hrópa eftirnöfn strákanna þegar vallarþulurinn bar fram það fyrra eftir hvert mark. Stemningin var orðin aftur eins og á handboltaleik með strákunum okkar. Allt fyrirgefið – allavega fram á sunnudaginn þegar Ísland mætir Svartfellingum í öðrum leik liðsins í undankeppninni.

Þeir nýttu allir tækifærin. Sigurbergur Sveinsson var í ham og skoraði sex mörk í sjö skotum; „Svifbergur“ kominn aftur með látum í landsliðið. Þýskalandsförin gert honum gott.
Ernir Hrafn Arnarson var með nokkra tæknifeila en hristi það af sér og spilaði vel, Stefán Rafn spilaði eins og hann gerði ekkert annað en að raða inn mörkum fyrir landsliðið og Bjarki Már Gunnarsson kom flottur inn í vörnina. Þetta var straujun eins og hún gerist best til að koma beygðu liði aftur í gang.