Handbolti

Aron: Takk fyrir upplýsingarnar - þetta er bara fínt

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Kristjánsson þjálfar KIF Kolding í Danmörku út tímabilið.
Aron Kristjánsson þjálfar KIF Kolding í Danmörku út tímabilið. Vísir/EPA
„Ég var bara að klára æfingu með Kolding og hef ekkert séð. Hvernig lítur þetta út?“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handbolta, við Vísi aðspurður hvernig honum litist á riðilinn sem Ísland verður í fyrir undankeppni EM 2016 í handbolta sem fram fer í Póllandi.

Blaðamaður tjáði Aroni að Serbar hefðu komið upp úr fyrsta styrkleikaflokki, Svartfellingar úr þeim þriðja og Ísraelsmenn úr þeim fjórða. Þannig liti riðillinn út.

„Þetta er bara fínt. Þetta eru löng ferðalög og við fáum Balkanþjóðir upp úr fyrsta og þriðja potti. Þar er náttúrlega hefð fyrir góðum handbolta. Þeir eru góðir í minni hópum að vinna tveir og þrír saman og vinna með línumanni. Þarna eru líka erfiðir útivellir - sérstaklega í Serbíu. En þetta verður bara spennandi,“ sagði Aron.

Serba segir hann augljóslega vera erfiðasta liðið í riðlinum en bendir á að Svartfjallaland hafi skilið Þýskaland eftir í síðustu undankeppni þannig það sé sýnd veiði en ekki gefin. Hann var feginn að komast hjá því að mæta Króötum, Dönum, Frökkum og Spánverjum.

„Serbar, Slóvenar og Ungverjar voru kannski bestu kostirnir í fyrsta styrkleikaflokki. Hinar þjóðirnar eru á hærri palli en aðrar eins og staðan er í dag. Svartfjallaland er samt nokkuð sterkt lið að fá úr þriðja styrkleikaflokki,“ sagði Aron en stefnan er að sjálfsögðu sett á EM.

„Þetta verður erfitt verkefni en auðvitað er stefnan að komast á EM,“ sagði Aron og kvaddi. „Takk fyrir upplýsingarnar,“ sagði hann léttur í bragði að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×