Viðskipti innlent

Fimmtíu þúsund geta virkjað farsímaskilríki

Farsímaskilríki eru sögð öruggasta auðkenningin á netinu.
Farsímaskilríki eru sögð öruggasta auðkenningin á netinu.
Yfir fimmtíu þúsund viðskiptavinir Símans geta nú virkjað rafræn skilríki á farsímann sinn án endurgjalds. Þeir sem ekki hafa tengt skilríkin við símann verða hvattir til þess á næstu vikum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu fjarskiptafyrirtækisins þar sem farsímaskilríki eru sögð vera talin öruggasta auðkenningin sem hægt er að nota á netinu. 

„Einnig hvetur Síminn aðra viðskiptavini sína að koma í Kringluverslun og uppfæra SIM-kortin sín og virkja skilríkin á bás Auðkennis sem stendur í versluninni. Það er ekki aðeins öruggt að nota farsímaskilríkin heldur einnig sáraeinfalt," segir í tilkynningunni. 

Þar er einnig bent á að rafræn undirskrift vegna lánaleiðréttinga ríkisstjórnarinnar verði forsenda þess að ríkið telji umsækjendurna hafa samþykkt ráðstöfunina.

„Þessi krafa ríkisstjórnarinnar um rafræna undirritun er mikil hvatning fyrir fólk að fá sér rafræn skilríki. Með skilríkjunum í símanum er notandinn með hæsta öryggisstig sem er í boði í dag. Ástæðan er einföld, lykilorðið er aldrei á netinu og undirritunin er í öruggu umhverfi á SIM-kortinu,“ segir Þór Jes Þórisson, forstöðumaður tæknimála Símans.

„Við hjá Símanum erum tilbúin. Fyrirtæki og stofnanir er tilbúin og lokaskrefið er að viðskiptavinir fái farsímaskilríkin í hendur,“ segir Þór. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×