Lokaumferð norsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta er nýlokið. Það var hlutskipti Hjartar Loga Valgarðssonar og félaga hans í Sogndal að falla niður um deild, en liðið tapaði 0-2 fyrir Stabæk á heimavelli. Bæði mörkin komu á síðustu þremur mínútum leiksins. Hjörtur lék 26 af 30 leikjum Sogndal á tímabilinu, skoraði eitt mark og gaf átta stoðsendingar.
Brann fer í umspil upp á sæti í úrvalsdeildinni að ári, en liðið vann dramatískan sigur á Haugesund á útivelli. Andreas Vindheim tryggði Brann sigurinn með marki á lokamínútunni. Brann mætir Mjøndalen IF, sem var í 3. sæti 1. deildar, í umspilinu. Birkir Már Sævarsson, leikmaður Brann, tók út leikbann í leiknum í dag.
Pálmi Rafn Pálmason skoraði annað mark Lillestrøm þegar liðið tapaði 3-2 fyrir Sarpsborg 08 á útivelli. Húsvíkingurinn spilaði allan leikinn, en Guðmundur Þórarinsson gerði slíkt hið sama fyrir Sarpsborg.
Pálmi skoraði alls níu mörk fyrir Lillestrøm á tímabilinu en óvíst er hvort hann verði áfram í herbúðum liðsins. Rúnar Kristinsson, fyrrverandi þjálfari KR, hefur verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá Lillestrøm á undanförnum vikum.
Hólmar Örn Eyjólfsson lék allan tímann í miðri vörn Rosenborg sem vann öruggan sigur á Strømsgodset, 4-1. Með sigrinum tryggði Rosenborg sér 2. sætið í deildinni.
Meistararnir í Molde unnu 2-0 sigur á Odd þar sem Björn Bergmann Sigurðarson sat allan tímann á varamannabekknum.
Hannes Þór Halldórsson og Eiður Aron Sigurbjörnsson léku allan tímann þegar Sandnes Ulf tapaði 1-2 fyrir Aalesund á heimavelli. Þetta var síðasti leikur Sandnes í úrvalsdeildinni í bili, en liðið féll úr deildinni í síðustu umferð. Hannes Þ. Sigurðsson kom inn á sem varamaður á 77. mínútu hjá Úlfunum.
Þrír Íslendingar voru í byrjunarliði Viking sem tapaði á útivelli fyrir Bodø/Glimt með þremur mörkum gegn tveimur. Indriði Sigurðsson, Björn Daníel Sverrisson og Jón Daði Böðvarsson byrjuðu allir, en Steinþór Freyr Þorsteinsson kom inn á sem varamaður á 80. mínútu.
Viðar Örn Kjartansson komst ekki á blað þegar Vålerenga vann 1-0 sigur á Start. Selfyssingurinn endaði þó sem langmarkahæsti leikmaður deildarinnar með 25 mörk í 29 leikjum. Næstur á markalistanum var Christian Gytkjær sem skoraði 15 mörk fyrir Haugesund.
Guðmudur Kristjánsson lék allan leikinn fyrir Start sem lauk leik í 12. sæti.
Öll úrslit dagsins:
Bodø/Glimt 3-2 Viking
Molde 2-0 Odd
Rosenborg 4-1 Strømsgodset
Sandnes Ulf 1-2 Aelesund
Sarpsborg 3-2 Lillestrøm
Sogndal 0-2 Stabæk
Vålerenga 1-0 Start
Haugesund 2-3 Brann
Lokastöðuna í deildinni má sjá á vef Verdens Gang.
Sogndal féll | Pálmi skoraði sitt níunda mark
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Mest lesið





Magnús Orri tekur við formannsstólnum af Páli
Íslenski boltinn




„Þú ert að tengja þetta við Rashford“
Enski boltinn
