Hann segir landsmönnum hafa verið sagt það síðustu fimm ár að Bandaríkin geti haft sig minna í frammi á alþjóðavettvangi án þess að það hafi áhrif á hagsmuni þerra og gildi.
„Þetta hefur gert Bandaríkin veikburða í augum heimsins og það ögrar fólki eins og herra Pútín.“
Á McCain þar við Vladímír Pútín, forseta Rússlands, en hermenn á hans vegum eru reiðubúnir til átaka á Krímskaga ef þess þykir þurfa.

„Fjárveitingar til varnarmála hafa verið minnkaðar upp á von og óvon en ekki af herkænsku. Íranir og Kínverjar hafa níðst á bandamönnum Bandaríkjamanna án afleiðinga. Og það versta af öllu, þá notaði Bashar al-Assad efnavopn í Sýrlandi, og komst upp með það.“
Hann segir framganga Pútíns á Krímskaga endurspegla minnkandi trúverðugleika Bandaríkjanna á heimsvísu. Obama verði að endurheimta hann og Krímskagi sé staðurinn til þess.
McCain talar ekki fyrir hernaðarlegri íhlutun Bandaríkjamanna en leggur til umfangsmiklar refsiaðgerðir gegn rússneskum ráðamönnum og vill hann að Rússland verði einangrað á alþjóðavettvangi. Þá vill hann að Bandaríkjamenn styðji enn frekar við bakið á hermönnum og óbreyttum borgurum í Úkraínu.
Hann segir að þó Obama hafi sagt að Bandaríkin væru ekki í samkeppni við Rússland, þá líti Pútín svo á að Rússland sé í samkeppni við Bandaríkin. Þá líkir McCain valdstöðu Rússlands við bensínstöð í samanburði við Bandaríkin.
„Rússar munu á endanum snúast gegn Pútín á sama hátt og af sömu ástæðum og Úkraínumenn snerust gegn Viktori Janúkovítsj. Við verðum að búa okkur undir það strax. Við verðum að sýna almenningi í Rússlandi að við styðjum við mannréttindi þeirra.“
Grein McCains má lesa í heild sinni inni á vef New York Times.