Mótið er eitt sterkasta innanhússmót í frjálsum íþróttum sem fram fer vestan hafs ár hvert. Öflugir kappar frá Bandaríkjunum og víðar keppa á mótinu en mikill heiður þykir að fá boð um að keppa á því.
Meðal þeirra sem mættir voru til New York var Ólympíu- og heimsmeistarinn í tugþraut, Ashton Eaton. Hann leitaði einmitt Anítu uppi og fór vel á með þeim og konu hans, Chelsea Eaton.
800 metra hlaupið var ein af aðalkeppnisgreinum mótsins. Þar áttu þær bandarísku Ajee Wilson, landi hennar Mary Cain og Aníta að leiða saman hesta sína. Svo fór reyndar að Cain ákvað að einbeita sér að míluhlaupinu þar sem hún sigraði.
Aníta var í forystu um tíma í hlaupinu í gær en þrjár fóru fram úr henni áður en yfir lauk. Hún náði þó sínum næstbesta tíma, 2:02,66 mínútur, og var þjálfari hennar, Gunnar Páll Jóakimsson, ánægður með frammistöðuna.

„Þessi reynsla kemur ekki nema með því að keppa við þær bestu og því var þetta hlaup mjög mikilvægt innlegg í því tilliti. Aníta var ekkert ánægð eftir hlaupið en sér þegar frá líður að hún var að gera vel,“ skrifaði Gunnar Páll á Fésbókarsíðu sína í gær.
Wilson sigraði á 2:01,81 mínútum en það er einmitt Íslandsmet Anítu innanhúss.
ÍR-ingurinn Stefán Þór Stefánsson var mættur á mótið í New York í gærkvöldi. Hann lét sig ekki muna um það að taka fjölmargar myndir af því sem fram fór. Myndirnar má sjá hér að ofan en Stefán Þór gaf Vísi góðfúslegt leyfi til þess að birta myndirnar.
Stefán Þór býr í Austin í Texas í Bandaríkjunum. Hann var afar öflugur frjálsíþróttamaður á sínum tíma, setti fjölmörg Íslandsmet og safnar afar fróðlegri tölfræði í kringum íslenskt frjálsíþróttalíf. Afraksturinn birtir hann reglulega á Fésbókarsíðu Frjálsíþróttasambands Íslands.
Aníta á eftir að keppa aftur í Bandaríkjunum í sumar. Heimsmeistaramót 19 ára og yngri fer fram í Eugene í Oregon í júlí. Þar verður Aníta í baráttu um verðlaun ef fram heldur sem horfir.
