Innlent

Segir Ísland enga femínistaparadís

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Druslugöngunni síðastliðið sumar.
Frá Druslugöngunni síðastliðið sumar. Vísir/Andri Marinó
Annadís Greta Rúdólfsdóttir, stjórnandi Jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna við Háskóla Íslands, ritar grein í The Guardian í tilefni af nýrri skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins, World Economic Forum, um jafnrétti kynjanna á heimsvísu.

Eins og undanfarin ár er Ísland efst á lista ráðsins yfir þjóðir heimsins þegar mið er tekið af kynjajafnrétti en grein Önnudísar ber heitið Iceland is great for women but it‘s no feminist paradise. Það mætti þýða sem svo: Ísland er frábært fyrir konur en það er engin femínistaparadís.

Annadís fjallar í greininni um stöðuna í jafnréttismálum á Íslandi í dag og dregur bæði fram hvar góður árangur hefur náðst en einnig hvar hægt er að gera betur.

Hún minnist sérstaklega á baráttu kvenréttindahreyfingarinnar fyrir kynjakvótum á framboðslistum stjórnmálaflokka, sem hafi sannarlega haft sín áhrif á stjórnmálaþátttöku kvenna, gallinn sé hins vegar sá að kvótinn er ekki bundinn í lög. Það er því stjórnmálaflokkunum í sjálfsvald sett hvort þeir taki upp kynjakvóta eða ekki á framboðslistum og því geti þátttaka kvenna í stjórnmálum minnkað eftir því sem hið pólitíska landslag breytist.

Þá segir Annadís það svo ekki koma á óvart að Ísland sé á toppnum þegar litið er til menntunar kvenna þar sem hér sé bæði ókeypis og gott menntakerfi. Hún minnir hins vegar á að enn sé mikill munur á því hvað konur og karlar velja að læra í háskóla; konur fari frekar í nám sem tengist umönnunarstörfum og karlar í nám tengt tæknigeiranum.

Í greininni talar Annadís jafnframt um kynbundinn launamun sem enn sé viðvarandi í samfélaginu. Í lok greinarinnar bendir hún svo á að taka verði allri tölfræði með ákveðnum fyrirvara. Þrátt fyrir góðan árangur á Íslandi, og þrátt fyrir að vera númer eitt á lista Alþjóðaefnahagsráðsins, er ennþá margt sem má bæta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×