Skoðun

Fleiri löggur – færri byssur

Eyrún Eyþórsdóttir skrifar
Þegar ég stundaði nám í lögregluskólanum fór fram eina þjálfun mín í skotvopnum og var hún í mýflugumynd. Síðan eru liðin ellefu ár og ég er fullviss um að ég treysti mér ekki til að skjóta úr Glock eða hríðskotariffli. Ég er ekki einu sinni með skotvopnaleyfi!

Ég hef, sem betur fer, í starfi mínu sem lögreglukona aldrei verið í aðstæðum þar sem ég óttast um líf mitt. Þó hef ég lent í átökum, sinnt ölvuðu og vímuðu fólki, unnið að rannsókn morðmála og alvarlegra ofbeldisglæpa og svo framvegis. Ég hef starfað faglega, treyst á hyggjuvitið, haft traust á „félögunum“ og vitað að í sérsveitinni eru vel þjálfaðir lögreglumenn, sem geta farið vopnaðir í aðstæður sem þess krefjast. Umræðan um aukinn vopnaburð lögreglumanna kom mér því í opna skjöldu. Auðvitað hefur þetta verið rætt á kaffistofum lögreglustöðvarinnar í gegnum tíðina og sitt sýnist hverjum en aldrei hefur umræðan verið á alvarlegum nótum og aldrei áður hef ég átt á hættu að taka líf!

Röng umræða

Að mínu mati er þetta röng umræða um öryggi lögreglumanna og þjóðarinnar. Rökstuðningurinn með vopnum hefur meðal annars verið sá að víða eru lögreglumenn fáir, jafnvel einir að störfum, og langt í aðstoð. Aðrir hafa rætt um aukna hörku í undirheimunum, mikla vopnaeign Íslendinga og svo framvegis. Allt eru þetta rök, en ekki með aukinni vopnavæðingu heldur með eflingu á lögreglunni. Margar rannsóknir sýna nefnilega fram á það að öryggi eykst ekki með vopnaburði lögreglumanna heldur þvert á móti. Í stað þess að ræða um vopnavæðingu mætti ræða á alvarlegum nótum um fjölgun lögreglumanna en þeim hefur fækkað töluvert eftir hrun og eru langt undir þeim viðmiðum sem eðlilegt getur talist. Fámenn lögreglulið og jafnvel staðir þar sem aðeins einn lögreglumaður er að störfum segir sig sjálft að auki hvorki né tryggi öryggi almennings.

Þá hafa atvik á undanförnum árum sýnt fram á það að lögreglan er of fámenn, t.d. þegar björgunarsveitamenn voru kallaðir út til að leita hættulegs strokufanga. Það segir sig sjálft að með því að fjölga lögreglumönnum eykst öryggistilfinning þeirra sjálfra. Samhliða þessu mætti fjölga sérsveitarmönnum (til dæmis með því að leyfa konum að ganga í sveitina) og staðsetja þá víðsvegar um landið. Með þeim hætti væri hægt að tryggja aðkomu vopnaðra lögreglumanna þegar aðstæður krefjast slíks.

Barn síns tíma

Þessu til viðbótar er mikilvægt að auka menntun og þjálfun lögreglumanna en það mundi jafnframt auka öryggiskennd þeirra. Flestir vita að lögregluskólinn er barn síns tíma en færri vita að endur- eða símenntun lögreglumanna er lítil. Herbragurinn á námi lögreglumannsins þarf að víkja fyrir húmanískri nálgun en betri samskiptahæfni og þekking í sáttarmiðlun gæti nýst vel og leitt að betri niðurstöðu en beiting vopna. Þá þurfa laun lögreglumanna að hækka til að tryggja að gott fólk haldist í lögreglunni og vilji ganga í lögregluna. Lögreglan sinnir mikilvægri samfélagslegri þjónustu og lögreglumenn víkja sér ekki undan því að starfa við alls kyns aðstæður á öllum tímum sólarhringsins og það ætti að skila sér í launaumslagið.

Þegar vopnahugmyndir eru skoðaðar með þessum gagnrökum má sjá að málið snýst um það að lögreglan er of fáliðuð og of lítið þjálfuð. Því hrýs mér hugur ef stjórnvöld og yfirmenn lögreglu sjá það sem hagræðingu að vopnavæða lögregluna í stað þess að efla hana fjárhagslega, auka menntun og þjálfun og fjölga lögreglumönnum. Yfirmenn lögreglunnar geta ekki farið gegn straumnum og vopnað lögreglumenn þvert á skoðanir almennings. Stundum er talað um gjá á milli þings og þjóðar, nú skulum við passa að ekki verði til gjá á milli lögreglu og þjóðar.




Skoðun

Sjá meira


×