Lífið

„Ég söng líka alltaf í laumi“

Baldvin Þormóðsson skrifar
Halla Norðfjörð hefur verið að syngja síðan hún var þriggja ára.
Halla Norðfjörð hefur verið að syngja síðan hún var þriggja ára. mynd/einkasafn
„Ég er búin að vera rosalega lengi að koma plötunni frá mér,“ segir Halla Norðfjörð en hún gefur út sína fyrstu sólóplötu í dag sem ber nafnið The Bridge.

Varðandi tónlistarstefnu segir Halla erfitt að flokka plötuna. „Ég hef heyrt alls konar pælingar, til dæmis álfa-fólktónlist,“ segir Halla og hlær. „Ætli þetta sé ekki bara einhvers konar melankólísk fólktónlist.“

Halla hefur meira og minna verið í tónlist allt sitt líf en hún byrjaði að spila á píanó þegar hún var þriggja ára.

„Ég söng líka alltaf í laumi,“ segir tónlistarkonan sem hætti síðan í píanónámi þegar hún var átta ára. „Ég byrjaði síðan aftur þegar ég var átján ára í píanói við FÍH og söng við Söngskóla Sigurðar Demetz.“

Halla kenndi sér hins vegar sjálf að spila á gítar og snertir á ýmsum strengjahljóðfærum en hún spilar meðal annars á mandólín og litla hörpu á nýju plötunni.

„Ég hef stundum heyrt að ég sé með svolítið öðruvísi stíl á gítarinn, en það er örugglega þannig þegar maður lærir sjálfur,“ segir hún. „Þá spilar maður bara það sem maður heyrir í hausnum og finnur út úr því.“

Halla heldur útgáfutónleikana á Café Rosenberg í kvöld klukkan 20:30 og er það Svavar Knútur sem hitar upp fyrir tónlistarkonuna.

Hér fyrir neðan má heyra Höllu spila „acoustic“ útgáfu af lagi sínu The Bridge.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.