Menning

Túlkar árstíðirnar í orðum og litum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Flestir þekkja mig sem konuna sem hefur málað tónlistarmenn og dansandi konur,“ segir Rut Rebekka.
„Flestir þekkja mig sem konuna sem hefur málað tónlistarmenn og dansandi konur,“ segir Rut Rebekka. Fréttablaðið/Valli
„Ég er búin að vera að mála í 40 ár. Er að verða sjötug og í staðinn fyrir að halda veislu ákvað ég að setja upp sýningu og gefa út bók með tuttugu og einu ljóði og tuttugu og einu myndverki,“ segir Rut Rebekka listmálari.

Hún opnar sýninguna Í garðinum á laugardaginn klukkan 14 í sal Íslenskrar grafíkur í Tryggvagötu 17 (gengið inn hafnarmegin.)

„Ég byrjaði á teikningunum. Dvaldi í fögrum garði Ríkharðs Valtingojers austur á Stöðvarfirði og teiknaði og teiknaði. Var svo innblásin að síðar málaði ég stór málverk eftir teikningunum, um einn og hálfan metra á kant.

Laufblöðin á myndunum eru ýmist lokuð eða að springa út með miklum krafti,“ lýsir Rut Rebekka og segir tveggja ára vinnu liggja að baki sýningunni.

Bókin hennar Rutar Rebekku heitir Málverk og ljóð – Paintings and Poems, ljóðin eru bæði á íslensku og ensku. Skyldi hún alltaf hafa ort?

„Nei,“ svarar hún glaðlega. „Þetta er frumraun mín í þeim efnum. Ég hef alltaf skrifað eitthvað en nú var ég undir svo sterkum áhrifum af gróðrinum, litunum og kraftinum í jörðinni að ég tók meðvitaða ákvörðun um að yrkja.“

Sýningin og ljóðin túlka vorið, sumarið, haustið og veturinn bæði í litum og orðum. Sýningin er opin þriðjudaga til sunnudaga frá klukkan 14 til 18 og endar sunnudaginn 23. mars.



Rut Rebekka Sigurjónsdóttir er fædd og uppalin á Lindargötunni í Reykjavík. Gekk í Hjúkrunarskólann og fór að vinna við hjúkrun en teiknaði og málaði sér til yndisauka.

Þrítug ákvað hún að næra listþörfina og hóf nám við Handíða- og myndlistarskólann, þá komin með þrjú börn, minnkaði starfið við hjúkrun í 40% og málaði daglega.

Hún hefur haldið einkasýningar í Hafnarborg, á Kjarvalsstöðum, í Norræna húsinu, í Kaupmannahöfn, Hamar í Noregi, Piteå í Svíþjóð og víðar. Þessi sýning er sú 20. í röðinni. Auk þess hefur hún tekið þátt í fjölda samsýninga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.