Innlent

Allt stefnir í verkfall á þriðjudag

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Samninganefndir Isavia og flugmálastarfsmanna funduðu í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. 400 flugmálastarfsmenn hafa boðað til fimm klukkustunda verkfallsagerða næstkomandi þriðjudag. Allt flug á Keflavíkurvelli og öðrum flugvöllum landsins mun þá leggjast niður og raskar það ferðaáætlun hjá um fimm þúsund farþegum Icelandair.

Frekari verkfallsaðgerðir hafa verið boðaðar síðar í apríl og allsherjarverkfall skellur á 30. apríl náist ekki samningar. Formaður félags flugmálastarfsmanna ríkisins segir fundinn í dag hafa verið jákvæðan. Mikið þurfi þó að gerast til að koma í veg fyrir verkfallsaðgerðir á þriðjudag. 

„Við erum að skiptast á hugmyndum og þetta var góður fundur í morgun. Ég er fullur bjartsýni,“ segir Kristján Jóhannsson formaður FFR. „Það er búið að boða til verkfalls á þriðjudaginn og munum ekki aflýsa því verkfalli fyrr en eitthvað er komið á blað. Við munum halda okkar striki. Við erum þó að tala saman og það er mjög jákvætt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×