Lífið

164 starfsmenn Jay Leno látnir fara

NBC Universal hefur sagt upp öllum 164 starfsmönnum The Tonight Show, með Jay Leno, nú þegar þátturinn færir höfuðstöðvarnar frá Burbank í Kaliforníu til New York í þessum mánuði.

Þátturinn færir sig yfir á austurströndina, en grínistinn Jimmy Fallon kemur til með að taka yfir þátt Jays Leno sem hefur stjórnað þættinum síðastliðin 22 ár.

Búist var við einhverjum uppsögnum í breytingunum, en nú virðist sem enginn þeirra 164 sem áður störfuðu við þáttinn fari með Leno í flutningunum.

Í viðtali við The Hollywood Reporter sagði Leno frá því að hann væri að færa þáttinn sex mánuðum áður en stóð til í þeim tilgangi að fá Fallon inn á meðan á Vetrarólympíuleikunum stæði. Leno sagði jafnframt að þegar NBCUniversal hefði lagt til að ferlinu yrði flýtt hefði hann farið fram á að starfsmönnum sínum yrði borgað í þessa sex mánuði, sem stöðin samþykkti.

Margir starfsmanna Leno hafa unnið með honum síðan hann tók yfir þáttinn frá Johnny Carson, árið 1992. Árið 2012, tók Leno á sig launalækkun til að bregðast við því þegar átti að segja upp starfsmönnum í framleiðsludeild þáttarins.

Talsmaður fyrir NBC Universal sagði í viðtali að þeim starfsmönnum sem hefði verið sagt upp væru hvattir til þess að sækja um önnur störf innan fyrirtækisins, þar á meðal stöður í The Tonight Show með Jimmy Fallon í New York.

Jay Leno stjórnar síðasta þætti sínum af The Tonight Show þann sjötta febrúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.