Handbolti

Snorri Steinn: Vitum að Gaui er líklegur til alls þótt að hann æfi ekki neitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Mynd/AFP
Snorri Steinn Guðjónsson fagnaði því eins og aðrir með taugar til íslenska handboltalandsliðsins þegar það var ljóst í dag að Arnór Atlason og Guðjón Valur Sigurðsson verði með íslenska landsliðinu á EM í Danmörku sem hefst á sunnudaginn.

„Það er virkilega þægilegt að sjá Arnór og Guðjón Val á listanum. Það segir sig bara sjálft. Þegar svona menn eru meiddir fer aðeins um menn og það er bara eðlilegt að umræðan hafi aðeins snúist um það," segir Snorri Steinn.

„Þeir verða vonandi báðir með en það er allavega hundrað prósent öruggt með Arnór. Hann er búinn að líta vel út á þessum æfingum. Gaui hefur ekki æft mikið með okkur en við sem þekkjum Gaua vitum að hann er líklegur til alls þótt að hann æfi ekki neitt," segir Snorri Steinn léttur.

„Auðvitað vonum við að Gaui sé með það segir sig bara sjálft. Ef eitthvað annað kemur í ljós þá erum við með Stebba (Stefán Rafn Sigurmannsson) sem er virkilega frambærilegur hornamaður og hann kemur til með að leysa það hundrað prósent," segir Snorri Steinn.

Íslenska landsliðið flýgur út til Danmerkur í fyrramálið og fyrsti leikurinn er síðan á móti Noregi á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×