Innlent

Borg og lögregla skera upp herör gegn heimilisofbeldi

Svavar Hávarðsson skrifar
Tilraunaverkefni á Suðurnesjum hefur gefið góða raun og er fyrirmynd breyttra áherslna í Reykjavík.
Tilraunaverkefni á Suðurnesjum hefur gefið góða raun og er fyrirmynd breyttra áherslna í Reykjavík. vísir
Reykjavíkurborg mun vinna náið með lögregluyfirvöldum við að taka betur á heimilisofbeldismálum. Leitað er í smiðju Suðurnesjamanna þar sem slíkt samstarf hefur gefið góða raun.

Samstarfsverkefni gegn heimilisofbeldi hófst á Suðurnesjum í febrúar í fyrra, þar sem lögreglan á Suðurnesjum, fjölskyldu- og félagsþjónusta Reykjanesbæjar og félagsþjónustan í Grindavík, Sandgerði, Garði og Vogum tóku höndum saman. Reynslan af Suðurnesjum er af aukningu á nálgunarbanni og brottvísun af heimili, ásamt því að fleiri mál fara til ákæruvaldsins.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, hafa sammælst um að vinna í þeim anda sem gert er á Suðurnesjum. Um stórt samvinnuverkefni er að ræða en einstök smáatriði liggja ekki ljós fyrir.

Dagur segir að síðastliðið vor hafi verið samþykkt tillaga frá Sóleyju Tómasdóttur borgarfulltrúa um átak gegn heimilisofbeldi, og Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar hafi haft verkefnið til skoðunar. Fyrir liggja hugmyndir um aðgerðaráætlun og unnið er að kostnaðarmati.

„Það hittist svo vel á að fyrrverandi lögreglustjórinn á Suðurnesjum er núna orðinn lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins og því ljóst að það verður styrkur að samstarfi við hana í þessum efnum. Mér finnst augljóst að þarna þarf að gera betur, og það á að gera betur. Ekki síst til að auka traust þolenda til bæði lögreglunnar og sveitarfélagsins og til að lyfta þessum málum fram í dagsljósið og koma þeim skýru skilaboðum á framfæri að við umberum ekki heimilisofbeldi,“ segir Dagur sem viðurkennir þó að verkefnið sé sjálfsagt aðeins flóknara en það er á Suðurnesjum. Verið sé að greina hvað verkefnið útheimti og hvernig skipta eigi verkum. „Það er að ýmsu að hyggja í framkvæmdinni en það mun ekki draga úr okkur kjarkinn við að leggja áherslu á þennan málaflokk í sameiningu.“

Sérstök áhersla á heimilisofbeldismál

Á Suðurnesjum leggur lögregla sérstaka áherslu á rannsókn heimilisofbeldismála og félagsþjónustur sveitarfélaganna setja það í forgrunn að bæta þjónustu við þolendur og gerendur; þolandanum er veitt fyrsta aðstoð t.d. með því að fara með viðkomandi til læknis ásamt því að hlúa að börnum ef þau eru til staðar.

Eftirfylgni er í öllum málum, þar sem samband er haft við þolandann innan þriggja daga og gerandanum er einnig boðin aðstoð við að vinna úr sínum málum. Lögreglan og starfsmaður félagsþjónustu fara svo á heimili þolanda innan viku frá því að tilkynnt var um heimilisofbeldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×