Innlent

"Ef það væri í vinnu hjá mér þá fengi það reisupassann“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Í þættinum Mín skoðun með Mikael Torfasyni tókust þau Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdarstjóri Pfaff, Elín Hirst þingkona og Páll Vilhjálmsson, stjórnarmaður í Heimssýn um aðildarumsóknina að Evrópusambandinu.

Heitar umræður hafa skapast um fyrirhugaða afturköllun viðræðnanna og sagði Elín Hirst vilja leita sátta í málinu þó hún vissi ekki hver sú lausn væri. Elín vill ræða úttektarskýrslu Hagfræðistofnunnar betur á þinginu og sagði að of geyst hafi verið farið í þessu máli á síðustu dögum.

Þegar umræðan barst að sáttalausnum í málinu stóð ekki á svörum hjá Páli Vilhjálmssyni: „Eina sáttin er fólgin í því að afturkalla þennan lýðræðisbrest,“ sagði Páll og bætti við að úrslit síðustu kosninga hafi endurspeglað að enginn vilji væri meðal landsmanna að ganga í Evrópusambandið.

„Ef nýtt pólitískt mat kemur fram mun það endurspeglast í kosningum“.

Margrét Kristmannsdóttir vandaði stjórnarflokkunum ekki kveðjurnar. „Ef það væri í vinnu hjá mér þá fengi það reisupassann,“ sagði Margrét.

Hún taldi að sú reiði sem væri nú í þjóðfélaginu og endurspeglaðist í þúsundum mótmælenda á Austurvelli og á fimmta tug þúsunda undirskrifta gegn afturköllun viðræðnanna snérist ekki endilega um það að allt þetta fólk væri eldheitir Evrópusinnar.

„Fólki finnst það svikið,“ sagði Margrét og vísaði þar til ummæla forystumanna stjórnarflokkana um þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsaðild.

„Loforð eru ekki varnaglar eða hugtök sem þú getur teygt. Loforð eru loforð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×